Sex úr áhöfn flugvélar Ryanair-flugfélagsins sem mynd var birt af sofandi á gólfi spænsks flugvallar í síðasta mánuði, hafa nú verið reknir úr starfi.
Ryanair segir myndina, sem fór víða á samfélagsmiðlum, hafa verið sviðsetta. Segir talsmaður Ryanair starfsmennina hafa verið rekna fyrir ósæmilega hegðun í starfi. Portúgalskt verkalýðsfélag, sem er fulltrúi starfsmannanna, hefur gagnrýnt flugfélagið.
Rúmlega 20 manna áhöfn Ryanair voru strandaglópar á flugvellinum á Malaga á Spáni, eftir að flugvél sem lenda átti í Porto í Portúgal var beint þangað vegna óveðurs.
Í fyrri yfirlýsingu frá Ryanair kom fram að hótel í borginni hafi verið fullbókuð þar sem þetta var almennur frídagur á Spáni, en að engin hafi þó neyðst til að sofa á gólfinu.
Áhöfnin hafi dvalið skamma stund í áhafnarherbergi á flugvellinum, áður en hún var flutt yfir í VIP-setustofu og svo flutt til Porto næsta dag.
Ryanair staðfesti í dag að sexmenningarnir á myndinni hefðu verið reknir og að það hefði gert eftir að fjölmiðlaumfjöllun um myndina skaðaði orðspor fyrirtækisins og „skaðaði varanlega traust í garð“ sexmenninganna.
Portúgalska stéttarfélagið SNPVAC hefur áður sagt að áhöfnin hafi verið látin dvelja í áhafnarherberginu frá því hálftvö um nóttina og til sex um morguninn án lágmarkshvíldaraðstöðu. Þá hafi áhöfnin ekki heldur haft aðgang að mat, drykk eða nægum fjölda sæta, þar sem eingöngu átta stólar voru í herberginu.