„Tveir geta leikið sama leikinn“

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur fagnað mjög niðurstöðum þingkosninganna í landinu sem fram fóru í gær og segir þær fela í sér gríðarlega góðan árangur fyrir Repúblikanaflokkinn. Þrátt fyrir að missa meirihluta sinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings hélt flokkurinn meirihluta sínum í öldugadeildinni og bætti við sig þingmönnum.

„Þeir sem unnu með mér í þessum ótrúlegu þingkosningum og héldu á lofti ákveðnum stefnum og grundvallaratriðum stóðu sig mjög vel. Þeir sem það gerðu ekki, takið pokann ykkar! Gærdagurinn var slíkur stórsigur þrátt fyrir þrýsting frá kvikindislegum og fjandsamlegum fjölmiðlum,“ skrifar forsetinn á Twitter-síðu sína í dag.

Trump bætir við að hann hafi aðeins eitt að segja við þá stjórnmálaskýrendur sem ekki viðurkenna að repúblikanar hafi unnið stóran sigur: „Falsfréttir!“ Forsetinn segir ennfremur á Twitter að hann hafi tekið við fjölmörgum hamingjuóskum í kjölfar niðurstaðna kosninganna, þar á meðal frá erlendum vinaþjóðum sem vonist eftir viðskiptasamningum.

Þá beinir Trump orðum sínum að demókrötum og segir að ef þeir reyni að eyða skattfé á vettvangi fulltrúadeildarinnar til þess að rannsaka hann og samstarfsmenn hans þá verði repúblikanar tilneyddir að íhuga rannsóknir á vettvangi öldungadeildarinnar á demókrötum vegna leka á alls kyns trúnaðarupplýsingum. „Tveir geta leikið sama leikinn.“

Boðað hefur verið til blaðamannafundar í Hvíta húsinu klukkan 16:30 í dag að íslenskum tíma þar sem Trump hyggst tjá sig um niðurstöður kosninganna.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert