Vonast eftir fundi með Kim á næsta ári

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir að repúblikanar hafi átt „stóran dag“ eftir að flokkur hans missti meirihluta sinn í fulltrúadeild Bandaríkjaþings í þingkosningunum í landinu en jók meirihluta sinn í öldungadeildinni. Hann vonast til að funda með Kim Jong-un, leiðtoga N-Kóreu, snemma á næsta ári. 

Á blaðamannafundi í Hvíta húsinu virtist forsetinn vilja ná sáttum við demókrata því hann hrósaði leiðtoga þeirra, Nancy Pelosi, sem tekur líklega við sem forseti fulltrúadeildarinnar. Aftur á móti gagnrýndi hann blaðamenn fyrir að setja spurningamerki við þær aðferðir sem hann notaði í kosningabaráttunni.

„Þetta var stór dagur í gær, ótrúlegur dagur,“ sagði Trump. „Í gærkvöldi náði Repúblikanaflokkurinn sögulegum árangri með því að auka við meirihlutann í öldungadeildinni á meðan árangurinn var umfram væntingar í fulltrúadeildinni.“

Donald Trump á blaðamannafundinum.
Donald Trump á blaðamannafundinum. AFP

Repúblikanar báru sigurorð af öldungadeildaþingmönnum demókrata í þó nokkrum ríkjum sem Trump sigraði í forsetakosningunum árið 2016, eða Flórída, Indiana, Missouri og Norður-Dakóta.

Trump sagðist vilja sjá demókrata og repúblikana vinna saman í ákveðnum málum og nefndi að Pelosi „eigi hrós skilið fyrir það sem hún hefur áorkað“. Hann bætti við að flokkarnir tveir gætu starfað saman í heilbrigðismálum og í að byggja upp innviði. „Vonandi getum við starfað öll saman á næsta ári og haldið áfram að gera góða hluti fyrir Bandaríkjamenn.“

Hann neitaði því að hafa notfært sér ferðir hælisleitenda yfir bandarísku landamærin í gegnum Mexíkó til að ala á hræðslu í aðdraganda kosninganna.

AFP

„Gæti rekið alla undir eins“

Forsetinn sagðist ekki hafa áhyggjur af rannsókninni á kosningarferð hans þar sem grunur leikur á um að Rússar hafi reynt að hafa áhrif. „Ég gæti rekið alla undir eins en ég vil ekki stöðva hana [rannsóknina] vegna þess að í pólitísku samhengi vil ég ekki stöðva hana.“  Hann bætti við að rannsóknin væri gabb og að ekkert leynimakk hafi verið til staðar.

Hann nefndi einnig að hann vonist til að hitta Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, aftur snemma á næsta ári. Honum liggi samt ekkert á að komast að samkomulagi. Trump kvaðst vera tilbúinn til að draga úr viðskiptaþvingunum gagnvart N-Kóreu en að þjóðin verði að koma til móts við Bandaríkin.

Enginn fundur með Pútín í París

Trump sagði engan fund fyrirhugaðan með Vladimir Pútín Rússlandsforseta á hátíðarhöldum í París í tilefni þess að 100 ár eru liðin frá lokum fyrri heimstyrjaldarinnar. Leiðtogar frá 70 til 80 ríkjum verða á meðal gesta. „Ég held að Pútín forseti verði þar en við höfum ekki skipulagt fund,“ sagði Trump.

Sú uppákoma varð einnig á blaðamannafundinum að Trump neitaði að svara frekari spurningum Jim Acosta, fréttamanns frá CNN. Aðstoðarmaður í Hvíta húsinu gekk svo langt að reyna að fjarlægja hljóðnemann sem hann bar á sér.  




Kim Jong-un, leiðtogi N-Kóreu.
Kim Jong-un, leiðtogi N-Kóreu. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert