Hundruð buffla drukknuðu á lanamærum Botswana og Namibíu og bendir frumrannsókn til að hjörðin hafi verið á flótta undan ljónum.
Segja yfirvöld í Botswana að svo virðist sem dýrin hafi hlaupið út í ána. BBC hefur eftir húseiganda á svæðinu að þeir kunni að hafa verið fastir úti í ánni, þar sem árbakkinn hinum megin hafi verið of hár fyrir þá að komast upp á. Þeir hafi því fyllst skelfingu og troðningur orðið í hjörðinni.
Kvaðst hann ekki vita til þess að jafnstór bufflahjörð hafi áður drukknað. 50 dýr sé það mesta sem hann viti um hingað til, en yfirvöld í Botswana telja að um 400 vísundar hafi drukknað.
Simone Micheletti, sem á hús Namibíumegin árinnar, segir hjörðina hafa verið óvenjustóra, um 1.000 bufflar hafi verið í henni. Hann kvaðst enn fremur hafa heyrt ljón öskra á þriðjudagskvöldið og þegar hann fór niður að ánni næsta morgun sá hann hundruð dauðra vísunda.
Sagði Micheletti að það hafi verið skýjað um kvöldið og dýrin hafi því mögulega ekki séð vel til.