Tveir stórir skógareldar geisa nú í Kaliforníu í Bandaríkjunum, annar vestan við Los Angeles en hinn norðar í ríkinu, nærri borginni Sacramento.
Yfir 150.000 manns hafa þurft að leggja á flótta frá heimilum sínum undan eldunum, sem breiðast báðir hratt út, sökum þess hversu hvasst er á svæðinu. Ljóst er að manntjón hefur orðið.
Skógareldunum hafa verið gefin nöfn, sá sem geisar nærri Los Angeles er kallaður Woolsey-eldurinn en hinn kallaður Camp-eldurinn.
Sá síðarnefndi hefur valdið meiri eyðileggingu og einnig manntjóni, sér í lagi í bænum Paradise, þar sem allir 27.000 íbúarnir þurftu að flýja heimili sín, sem urðu svo öll eldinum að bráð.
Reuters greinir frá því að bílslys hafi orðið til þess að umferð út úr bænum tepptist og að fólk hafi yfirgefið bíla sína á vegum úti og hlaupið frá eldunum með börn og gæludýr í fanginu.
Yfirvöld í ríkinu segja ljóst að manntjón hafi orðið, en ekki er vitað hve margir létu lífið. Þó er staðfest að alla vega fimm manns hafa fundist látin í Paradise, en líkin fundust öll í bifreiðum sem höfðu orðið eldinum að bráð.
Eldurinn kviknaði nærri bænum Camp Creek í gær og nær nú yfir 8.100 hektara svæði og slökkviliðsmenn fá ekkert við hann ráðið.
Woolsey-eldurinn ógnar nú byggð við ströndina nærri Los Angeles, meðal annars hluta Malibu. Hann braust út nærri bænum Thousand Oaks, þar sem árásarmaður myrti 12 manns í skotárás á miðvikudag.
Tugir þúsunda heimila hafa verið rýmd á svæðinu sem liggur á milli Thousand Oaks og vesturhluta Los Angeles-borgar, um 40 kílómetra kafla.
Á þessu svæði búa fjölmargar Hollywood-stjörnur í stórhýsum sínum og hafa þau Kim Kardashian og Kanye West meðal annarra orðið að yfirgefa heimili sitt. West greindi frá því á Twitter í dag að fjölskyldan væri óhult.