Talið að ellefu hafi látist í eldunum

Talið er að 11 manns hið minnsta hafi látist í stórum skógareldum sem nú geisa í Kaliforníuríki, bæði í suður- og norðurhluta ríkisins. Tugþúsundir hafa misst heimili sín og yfir 250.000 manns hafa neyðst til þess að yfirgefa þau.

Í norðurhluta ríkisins hefur verið staðfest að níu manns hafi orðið Camp-eldinum svokallaða að bráð í bænum Paradise, sem brann til grunna aðfaranótt föstudags. Bærinn er norðan við borgina Sacramento. Þar er 35 til viðbótar einnig saknað og óttast er um afdrif þeirra.

Fimm þeirra sem létust hafa fundist í eða við bifreiðar sínar, á flótta út úr bænum. Fjórir til viðbótar fundust látnir í húsum eða nærri húsum í bænum.

Frá bænum Paradise í gærdag. Þar brunnu á milli 80-90% …
Frá bænum Paradise í gærdag. Þar brunnu á milli 80-90% húsa og hátt í 30.000 manns sitja uppi heimilislaus. AFP

Ótrúleg myndskeið hafa verið birt á samfélagsmiðlum og í fréttatímum, sem sýna fólk keyra burt frá brennandi bænum í miklu snarhasti. Við vegina út úr bænum má nú sjá fjölmarga yfirgefna bíla, sem brunnið hafa til kaldra kola eftir að ökumenn og farþegar lögðu hlaupandi á flótta undan eldinum.

CNN greinir frá því í dag veðurfræðingar vestanhafs telji að útlit sé fyrir það að áframhaldandi þurrkur og öflugir vindar muni verða til þess að eldarnir breiðist áfram út af nokkrum krafti, jafnvel í heila viku.

Yfirgefnir bílar nærri Paradise.
Yfirgefnir bílar nærri Paradise. AFP
Maður ljósmyndar skógareldinn í Malibu, nærri Los Angeles í dag.
Maður ljósmyndar skógareldinn í Malibu, nærri Los Angeles í dag. AFP

Woolsey-eldurinn svokallaði í suðurhluta ríkisins, nærri Los Angeles, hefur tvöfaldast að stærð síðan í gær og talið er að tveir hafi látist vegna eldanna í grennd við Malibu. Þar er einnig annar eldur, Hill-eldurinn, sem er mun minni, en hefur þó vaxið töluvert frá því í gær.

Gervihnattamynd sýnir hvernig reyk frá eldunum leggur út á Kyrrahafið.
Gervihnattamynd sýnir hvernig reyk frá eldunum leggur út á Kyrrahafið. Zoom Earth

„Umfang eyðileggingarinnar vegna eldanna er ótrúlegt og átakanlegt,“ segir Mark Ghilarducci, talsmaður skrifstofu ríkisstjórans í Kaliforníu.

Frétt BBC um eldana

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert