Trump afboðaði sig vegna veðurs

Donald Trump á leið í forsetaflugvélina Air Force One, á …
Donald Trump á leið í forsetaflugvélina Air Force One, á leið til Parísar. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur í dag sætt gagnrýni fyrir að hafa afboðað komu sína til minningarathafnar um fallna bandaríska hermenn í fyrri heimsstyrjöld sem fram fór í Ains-Marne-kirkjugarðinum í Frakklandi í dag. Uppgefin ástæða var rigningarveður sem verið hefur á svæðinu.

Trump sendi John Kelly, starfsmannastjóra Hvíta hússins, í sinn stað, en ákvörðun hans hefur verið gagnrýnd og hún sögð vanvirðing við hina föllnu hermenn.

Meðal þeirra sem gagnrýnt hafa forsetann er Nicholas Soames, þingmaður Breska íhaldsflokksins og barnabarn Winston Churchill, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. „Þeir [hermennirnir] létu lífið í viðureign við óvin sinn og hinn aumkunarverði Donald Trump gat ekki einu sinni mætt veðrinu til að votta þeim virðingu sína,“ ritaði hann á Twitter í dag.

Trump var einnig borinn saman við forvera sinn í embætti, Barack Obama. „Ólíkt Trump, þá stöðvaði rigningarúði aldrei Obama forseta í því að heiðra fallmar stríðshetjur,“ ritaði Adam Blickstein, fyrrverandi yfirmaður í varnarmálaráðuneyti Bandaríkjanna, á Twitter.

Trump mun á morgun heimsækja kirkjugarð í einu úthverfa Parísar, Suresnes. Þar munu 70 þjóðarleiðtogar koma saman við Grafhýsi hins óþekkta hermanns.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert