Hann var mættur á sinn stað í miðjum vítateignum, fékk lága sendingu frá hægri og flikkaði knettinum í netið framhjá bjargarlausum markverðinum – með hælnum. Eins elegant og það gat orðið, svo sem gömlu kempunnar var von og vísa. Alla jafna hefði Leikhús draumanna sprungið í loft upp af hrifningu og gleði en að þessu sinni mátti heyra saumnál detta. Þetta eftirmiðdegi var Denis Law, „kóngurinn á Old Trafford“, nefnilega klæddur í heiðbláa treyju höfuðandstæðingsins, Manchester City. Til að bíta höfuðið af skömminni féll Manchester United í 2. deild, sem þá hét, þennan dag eftir þrjátíu ár meðal þeirra bestu – aðeins sex árum eftir að lærisveinar Matts Busbys lyftu Evrópubikarnum á Wembley.
Busby var að vísu sestur í helgan stein á þessum tíma og Tommy Docherty tekinn við United-liðinu. Það er kaldhæðni örlaganna að það var einmitt Denis Law sem mælti með því að Docherty yrði ráðinn en þeir höfðu kynnst meðan sá síðarnefndi stýrði skoska landsliðinu.
Sjaldan í sparksögunni hefur markaskorari fagnað með eins hófstilltum hætti; ugglaust hefði aumingja Law helst kosið að jörðin gleypti hann á þessu augnabliki. Honum leið augljóslega mjög illa, það var engin tilgerð, enda hafði hann yfirgefið Manchester United sumarið áður eftir ellefu farsæl ár sem höfðu lyft honum á stall með goðsögnum.
Skömmu eftir markið var Law skipt út af og leikurinn rann út í sandinn þegar hörðustu áhangendur United þustu inn á völlinn í þeirri veiku von að úrslitunum yrði hnekkt og leikurinn leikinn að nýju. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu; knattspyrnusambandið lét úrslitin standa, enda aðeins örfáar mínútur óleiknar, og þegar Birmingham City vann sinn leik skömmu síðar, gegn Norwich City, sem þegar var fallið, lá fyrir að United myndi leika í 2. deild veturinn eftir.
Raunar skiptu úrslitin í leik United og City ekki máli þegar upp var staðið; sigur hefði ekki dugað „Rauðu djöflunum“ til að halda sæti sínu. Það er því útbreiddur misskilningur að Law hafi fellt sína gömlu félaga enda þótt hann hafi vitað minnst um það sjálfur þegar hann horfði á eftir knettinum í netið. Hælspyrna hans gerði þó afskaplega lítið til að lyfta andrúmsloftinu á Old Trafford þetta kalda eftirmiðdegi vorið 1974.
Ekki svo að skilja að Law hafi huggað sig við þá staðreynd gegnum tíðina að hann hafi ekki veitt sínu gamla félagi náðarhöggið. „Mér leið bölvanlega, sem var mjög ólíkt mér,“ sagði hann í samtali við dagblaðið Daily Mail árið 2012. „Eftir að hafa rembst eins og rjúpan við staurinn að skora mörk í nítján ár hafði ég allt í einu skorað mark sem ég vildi að ég hefði aldrei skorað. Ég var óhuggandi; óskaði þess að þetta hefði ekki átt sér stað.“
Spurður hversu lengi sú tilfinning hefði bærst með honum svaraði Law: „Hvað er langt síðan þessi leikur fór fram? Meira en þrjátíu ár. Þar hefurðu svarið. Þetta mark ber alltaf annað veifið á góma og mín verður alla tíð minnst vegna þess. Sem er synd og skömm.“
Þegar annað breskt blað, The Independent, náði í skottið á Law tveimur árum síðar, í tilefni af Manchester-slagnum, kvaðst hann ekki muna eftir markinu. Og dró augað í pung. „Stuðningsmenn City minna mig þó endrum og sinnum á það,“ var haft eftir honum. Blaðamaðurinn skynjaði þó sterkt að Law þætti ekki auðvelt að tala um þetta og gaf honum því tilfinningalegt svigrúm.
Ekki er víst að allir muni eftir því en Denis Law sneri þarna aftur til Manchester City en hann lék fyrst með liðinu veturinn 1960-61, tvítugur að aldri. Kom þaðan fyrir metfé, 55.000 pund, frá Huddersfield Town. Law lenti í þeim ósköpum þessa leiktíð að skora sex mörk í einum og sama leiknum, gegn Luton Town í bikarnum – en tapa samt. Hvernig gat það gerst? Jú, leiknum var hætt vegna bágra vallarskilyrða og leikinn á ný. Þá skoraði Law enn og aftur en Luton vann eigi að síður, 3:1.
Greinina í heild má lesa í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.