Mannréttindasamtökin Amnesty International hafa svipt Aung San Suu Kyi, leiðtoga Búrma (Mijanmar), æðstu viðurkenningu samtakanna vegna „afskiptaleysis“ í málefnum rohingja.
Suu Kyi hlaut verðlaunin Ambassador of Conscience árið 2009 þegar hún var enn í stofufangelsi.
„Við erum virkilega óánægð með að þú sért ekki lengur fulltrúi vonar, hugrekkis og verjandi mannréttinda,“ sagði yfirmaður Amnesty International, Kumi Naidoo, í bréfi til Suu Kyi.
„Amnesty International getur ekki réttlætt áframhaldandi stöðu þína sem viðtakandi Ambassador of Conscience-verðlaunanna og því ætlum við með sorg í hjarta að svipta þig þeim.“
Suu Kyi var látin vita af ákvörðuninni í gær en hún hefur ekki tjáð sig opinberlega um hana.
Búrmíski herinn hóf í ágúst í fyrra aðgerðir gegn rohingja-múslimum í Rakhine, sem hafa orðið þess valdandi að rúmlega 700.000 rohingjar flúðu til nágrannaríkisins Bangladess þar sem þeir búa í flóttamannabúðum við þröngan kost.
Stuðningsmenn Suu Kyi segja hana geta gert lítið til að bæta stöðuna, þar sem herinn hafi enn of mikil völd í Búrma.