Tónlistarmennirnir Neil Young og Robin Thicke og leikarinn Gerard Butler eru í hópi þeirra sem misst hafa heimili sín í gróðureldunum sem nú geisa í Kaliforníu. Tala látinna er komin komin upp í 31, um 200 manns er enn saknað og 250 þúsund hafa neyðst til að yfirgefa heimili sín.
Butler birti mynd á Twitter af brunarústum heimilis síns í Malibu og þakkaði slökkviliðsmönnum fyrir það hugrekki sem þeir sýndu í baráttunni við eldana, að því er CNN greinir frá. Thicke birti yfirlýsingu á Instagram og þakkar þar slökkviliðsmönnum og sjálfboðaliðum sem „hættu lífi sínu til að reyna að bjarga heimili okkar“.
Í færslu á versíðu sinni harmar Young áhrif loftslagsbreytinga. „Ég hef áður misst heimili mitt í gróðureldum í Kaliforníu og nú gerist það aftur,“ sagði hann.
Um 250 þúsund íbúar Kaliforníu hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna skógareldanna, sem eru þrír talsins, í ríkinu. Óttast er hvað gerist nú þegar farið er að hvessa og hefur Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, óskað eftir því við Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að hann lýsi yfir meiri háttar hamförum því með því er hægt að nýta fleiri alríkisneyðarsjóði. Beiðni Brown barst daginn eftir að Trump hótaði því að draga úr fjárframlögum til Kaliforníu þar sem hann telji að eldurinn hafi kviknað vegna slælegrar stjórnunar í skógarmálum ríkisins, samkvæmt frétt BBC.
Yfir 6.700 heimili hafa orðið eldinum að bráð í bænum Paradís en bærinn hefur verið þurrkaður út af yfirborði jarðar.
„Þetta er ekki nýja normið, þetta er hið nýja afbrigðilega,“ sagði Brown um þátt loftslagsbreytinga í gróðureldunum. „Þetta er raunverulega að gerast.“
Daryl Osby, lögreglustjóri Los Angeles, tók í sama streng og benti á hversu víða eldarnir valda eyðileggingu í ríkinu. Áður var staðan sú að yfirvöld í suðurhluta ríkisins gátu reitt sig á aðstoð frá nágrönnunum í norðri ef gróðureldar kviknuðu á þessum tíma árs. Það sé hins vegar ekki lengur tilfellið.
„Líkt og eldarnir í Camp-Creek í norðurhluta Kaliforníu sýna – þetta er stærri eldur, fleiri byggingar hafa eyðilagst og fleiri hafa farist – það er augljóst út frá aðstæðum í ríkinu að þetta eru loftslagsbreytingar og þetta mun halda áfram að gerast,“ sagði Osby.