Þúsundir slökkviliðsmanna vinna hörðum höndum við að slökkva skógareldana sem geisa í Kaliforníu. Eldarnir eru þeir mannskæðustu í sögu ríkisins en alls hafa 42 fundist látnir.
Flestir þeirra hafa látist af völdum Camp-eldanna svonefndu sem geisa við rætur Sierra Nevada-fjallgarðsins, norður af Sacramento. Í gær fundust 13 lík á þessum slóðum.
Sjö eldar geisa í Kaliforníu og eru Camp-eldarnir þeirra stærstir en um 250 þúsund manns hafa þurft að flýja heimili sín. Mjög hvasst er á þessum slóðum eða allt að 27 metrar á sekúndu. 6.500 heimili hafa eyðilagst í eldunum í bænum Paradise.