Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing er sagður hafa leynt upplýsingum um mögulegan galla í sjálfstýringarbúnaði í Boeing 737 MAX 8-farþegaþotum, en talið er að hann hafi átt þátt í því þegar þota indónesíska flugfélagsins Lion Air Fórst í síðasta mánuði.
Þetta kemur fram í frétt bandaríska viðskiptablaðsins Wall Street Journal og byggt á upplýsingum frá sérfræðingum sem taka þátt í rannsókn flugslyssins, sem kostaði 189 manns lífið, opinberum embættismönnum og flugmönnum flugfélaga.
Búnaður Boeing 737 MAX 8 og MAX 9 er hannaður til þess að bregðast við ef flugmenn hækka flugið hættulega hratt. Tekur þá sjálfstýringarkerfið yfir og lækkar flugið. Hins vegar gerist það svo hratt að flugmenninir geta ekki rétt þoturnar aftur af.
Þetta getur, samkvæmt upplýsingum sem Boeing sendi flugfélögum um viku eftir flugslysið, leitt til þess að farþegaþotur taki dýfu niður á við eða brotlendi. Jafnvel þótt flugmenn séu að fljúga þotunum sjálfir og reikna ekki með að búnaðurinn taki yfir.
Samkvæmt fréttinni kom þessi viðvörun frá Boeing mörgum flugmönnum, sem fljúga umræddum þotum hjá bandarískum flugfélögum, á óvart. Haft er eftir sérfræðingum að flugfélög og flugmenn hafi fyrir vikið ekki verið undirbúin fyrir slíkt.