Demókrati sigraði í Arizona

Kyrsten Sinema er fyrsti demókratinn í Arizona frá árinu 1994 …
Kyrsten Sinema er fyrsti demókratinn í Arizona frá árinu 1994 sem fær sæti í efri deild þingsins, og fyrsta konan úr röðum flokksins í ríkinu sem nær þessum áfanga. AFP

Þau tíðindi urðu í Arizona í Bandaríkjunum að fyrsta konan úr röðum demókrata var kjörin sem öldungadeildarþingmaður í ríkinu í þingkosningunum sem fóru fram í byrjun mánaðarins. Demókratinn Kyrsten Sinema sigraði repúblikanann Mörthu McSally í spennandi kosningu. 

Fram kemur á vef BBC, að Sinema er fyrsti demókratinn frá árinu 1994 í Arizona sem fær sæti í öldungadeildinni.

Þetta þýðir að munurinn á milli Repúblikanaflokksins og Demókrataflokksins er nú fjögur sæti, repúblikanar með 51 sæti og demókratar 47 í efri deild þingsins. Þá liggja niðurstöður enn ekki fyrir í tvennum kosningum til efri deildarinnar. 

Í Flórída er búið að fyrirskipa að öll atkvæði skuli verða endurtalin þar sem óopinberar niðurstöður bentu til að munurinn á milli frambjóðenda þar væri aðeins 0,5%. Þá mun önnur umferð fara fram í Mississippi síðar í þessum mánuði.

Búið er að telja nánast öll atkvæði í Arizona og er Sinema með 1,7% forskota á keppinautinn. Hún verður því fyrsta konan úr röðum demókrata frá Arizona sem fær sæti í öldungadeildinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert