Forsetar vísa mútuþægni á bug

Joaquin „El Chapo“ Guzman í janúar árið 2016 í haldi …
Joaquin „El Chapo“ Guzman í janúar árið 2016 í haldi mexíkósku lögreglunnar. AFP

Felipe Calderon, fyrrverandi forseti Mexíkó, hefur neitað því að hafa tekið við mútum frá eiturlyfjahringnum Sinaloa.

Þar með hafnaði hann ásökunum sem verjandi meints leiðtoga eiturlyfjahringsins, Joaquin „El Chapo“ Guzman, setti fram í dómsal.

„Yfirlýsingar lögmanns Joaquin „El Chapo“ Guzman eru kolrangar og settar fram af miklu gáleysi. Hvorki hann né Sinaloa-hringurinn eða nokkur annar lét mig fá peninga,“ sagði Calderon á Twitter en hann var forseti Mexíkó á árunum 2006 til 2012.

Enrique Pena Nieto, núverandi forseti Mexíkó, hefur einnig vísað því á bug að hafa tekið við mútum frá Sinola-hringnum.

„Ríkisstjórn Enrique Pena Nieto leitaði uppi, handsamaði og framseldi glæpamanninn Joaquin Guzman. Yfirlýsingar lögmanns hans eru algjörlega rangar og ærumeiðandi,“ sagði talsmaður forsetans á Twitter.

Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó.
Enrique Pena Nieto, forseti Mexíkó. AFP

Verjandinn sagði í dómsal í New York, þar sem réttað er yfir Guzman, að Sinaloa-hringurinn hafi mútað forsetum Mexíkó með hundruðum milljóna dollara.

Guzman, sem var framseldur til Bandaríkjanna í janúar í fyrra eftir að hafa flúið fangelsi í Mexíkó tvívegis, er ákærður í ellefu liðum, þar á meðal fyrir peningaþvætti og vopnaburð. Talið er að réttarhöldin yfir honum muni standa yfir í rúma fjóra mánuði.

Dómshúsið í Brooklyn þar sem réttarhöldin fara fram.
Dómshúsið í Brooklyn þar sem réttarhöldin fara fram. AFP

Verjandinn hélt því fram að Guzman hafi ekki stjórnað neinu innan Sinaloa, heldur Mayo Zambada, sem er einnig sagður vera forsprakki hringsins. Hann hafi mútað öllum, þar á meðal núverandi forseta Mexíkó og fyrrverandi forsetum.

Saksóknarar sögðu við réttarhöldin að Guzman hafi smyglað kókaíni í aldarfjórðung yfir mexíkósku landamærin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert