Þrír breskir múslimaklerkar hafa bæst í hóp þeirra sem þrýsta nú á stjórnvöld í Bretlandi um að bjóða Asia Bibi, kristinni konu frá Pakistan sem nýlega var sýknuð af guðlasti í heimalandinu, hæli.
Fyrrverandi utanríkisráðherra Bretlands, Boris Johnson, og aðrir stjórnmálamenn hafa einnig þrýst á ríkisstjórnina að bjóða fram aðstoð.
Asia Bibi hafði setið á dauðadeild í átta ár vegna guðlasts, en Hæstiréttur í Pakistan sýknaði Bibi í lok október. Fjöldi múslima hefur mótmælt ákvörðun Hæstaréttar á götum úti í Pakistan og krafist þess að hún verði tafarlaust tekin af lífi. Bibi er laus úr fangelsi en ekki er vitað hvar hún heldur til.
Eiginmaður Bibi hefur sagt fjölskylduna í hættu og sótt um hæli í Bretlandi, Bandaríkjunum og Kanada. Þá hefur lögmaður Bibi yfirgefið heimalandið vegna ótta um líf sitt.
Þrír háttsettir múslimaklerkar í Bretlandi, Qari Asim, Mamadou Bocoum og dr. Usama Hasan, auk fjölda breskra þingmanna, hafa sent innanríkisráðherra Bretlands, Sajid David, bréf þar sem þess er óskað að hann gefi út yfirlýsingu þess efnis að að Bretland byði Bibi velkomna, sækti hún þar um hæli.
„Við teljum að ráðstöfunum til þess að tryggja öryggi Asia Bibi og fjölskyldu hennar yrði vel tekið af flestum íbúum Bretlands, sama hvaða trúarbrögð þeir aðhyllast,“ segir meðal annars í bréfinu.