50 látnir í gróðureldunum í Kaliforníu

Tala látinna í gróðureldunum sem nú geisa í Kaliforníuríki heldur áfram að hækka og er nú vitað til þess að 50 manns hið minnsta hafi látið lífið í eldunum, sem eru þeir mannskæðustu í sögu ríkisins. Vinda, sem hafa gert slökkviliðsmönnum erfitt um vik að ná stjórn á eldunum, er þó tekið að lægja og hafa slökkviliðsmenn nú náð tökum á um 30% Creek-gróðureldanna, sem m.a. gjöreyddu bænum Paradise. Ekki er þó búist við að búið verði að slökkva eldana með öllu fyrir lok mánaðarins.

Réttarmeinadeild lögreglu í Butte-sýslu heldur áfram leit sinni í Paradise að þeim sem enn er saknað eftir eldana og er staðfest tala látinna í Creek-gróðureldunum nú komin upp í 48, að því er BBC greinir frá. Tuga er þó enn saknað og hafa yfirvöld varað við að kunni að taka vikur að finna alla þá sem létust.

CNN hefur eftir Kory L. Honea, lögreglustjóra Butte-sýslu, að sex hafi verið handteknir vegna gripdeilda og annarra glæpa á brunasvæðunum. Íbúar eru þá margir farnir að spyrja hvenær þeir geti haldið heim á ný.

„Það liggur ekki fyrir neinn sérstakur tímarammi,“ sagði Todd Durham, yfirmaður aðgerða í slökkviliði Kaliforníuríkis. „Mig grunar þó að það verði á næstu dögum.“ Von sé á hjálparsveitum á þau svæði sem verst urðu úti til að hjálpa íbúum og til að leita að þeim sem enn er saknað.

Hjálparsveitarmenn að störfum í rústum húsa sem brunnu í Woolsey-gróðureldunum.
Hjálparsveitarmenn að störfum í rústum húsa sem brunnu í Woolsey-gróðureldunum. AFP

Óttast um eldri borgara Paradise

Sérstakt færanlegt líkhús frá Bandaríkjaher ásamt teymi sem sérhæfir sig í líkskoðun í kjölfar hamfara og líkhundar hafa verið flutt á svæðið.

Talið er að margir eldri borgara Paradise, eða íbúar sem áttu erfitt með gang, séu í hópi fórnarlambanna, þar sem þeim kunni að hafa reynst erfitt að flýja eldana.

Tveir létust í  Woolsey-gróðureldunum og þar hafa yfir 240 km2 orðið eldinum að bráð, er það svæði sem er stærra að ummáli en borgin Denver og nær m.a. yfir lúxusíbúðahverfi í Malibu. Þar eru þekktir einstaklingar á borð við Miley Cyrus, Gerald Butler og Neil Young í hópi þeirra sem misst hafa heimili sín. 435 byggingar hafa eyðilagst í þeim eldum og hjálparsveitir eru þar enn að störfum, þó að búið sé að hleypa íbúum að 11 svæðum á ný.

Þá hefur slökkvilið náð tökum á um 90% Hill-gróðureldanna, í Ventura-sýslu.

Slökkviliðsmaður að störfum. Gróðureldarnir eru þeir mannskæðustu í sögu Kaliforníuríkis.
Slökkviliðsmaður að störfum. Gróðureldarnir eru þeir mannskæðustu í sögu Kaliforníuríkis. AFP

Ekki deyja átakalaust

Camp-gróðureldarnir halda hins vegar áfram að breiða úr sér. Sumir íbúar hafa þó fengið að snúa aftur heim. Justin Bartek missti æskuheimili sitt í Paradise en þar bjó faðir hans. Heimili systur hans brann líka. Sagðist Bartek hafa sérstaklega áhyggjur af föður sínum sem er kominn á eftirlaun. „Allur hans heimur fór á hvolf,“ sagði hann. „Aska móður minnar varð eftir í húsinu og það er erfitt að sætta sig við það.“

Nichole Jolly, annar íbúi Paradise, sagðist hafa haldið að hún myndi deyja þegar eldlogarnir umkringdu bíl hennar og fylltu af reyk. Hún kallaði á eiginmann sinn sem hvatti hana til að hlaupa. „Ef þú ert að fara að deyja, skaltu ekki deyja átakalaust,“  segir Jolly með tárin í augunum og rifjar upp orð hans.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur lofað hjálparsveitir og það mikla hugrekki sem þær sýni andspænis hættunni. „Við syrgjum þá sem við höfum misst og biðjum fyrir fórnarlömbunum, en þau eru fleiri en nokkur taldi mögulegt,“ sagði Trump.

Mæðginin Katherine Marinara og Luca sonur hennar leita í rústum …
Mæðginin Katherine Marinara og Luca sonur hennar leita í rústum heimilis síns í Malibu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka