Samið hefur verið um vopnahlé á Gaza eftir að umfangsmikil átök brutust þar út fyrir um tveimur sólarhringum. Egyptar höfðu frumkvæði að samningum um vopnahléið sem forystumenn Hamas, og annarra fylkinga Palestínumanna á Gaza, og Ísraelar samþykktu.
Átökin sem brutust út um helgina eru þau hörðustu í fjögur ár. Með vopnahléinu vonast menn til þess að komið verði í veg fyrir að nýtt stríð brjótist út.
Forsætisráðherra Ísraels, Benjamin Netanyahu, hefur verið gagnrýndur af samráðherrum sínum, fyrir að samþykkja vopnahléið, sem vilja grípa til frekari aðgerða á svæðinu. Meðal þeirra er landvarnaráðherra Ísraels, Avigdor Lieberman, sem er andvígur því að loftárásum verði hætt á Gaza.
„Óvinir okkar grátbáðu um vopnahlé og þeir vita vel af hverju,“ sagði Netanyahu þegar hann varði ákvörðun sína á samkomu í morgun til heiðurs David Ben-Gurion, fyrsta forsætisráðherra Ísraels.