Mikil vinna fram undan

Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í viðræðum við bresk stjórnvöld um …
Michel Barnier, aðalsamningamaður ESB í viðræðum við bresk stjórnvöld um Brexit, ásamt Antonio Tajani, forseta Evrópuþingsins. Saman halda þeir á samningsdrögunum um útgöngu Breta úr ESB. AFP

Þrátt fyrir að ríkisstjórn Bretlands hafi samþykkt drög­in að Brex­it-samn­ingn­um er mikil vinna fram undan, beggja vegna samningaborðsins. Þetta segir Michel Barnier, aðalsamningamaður Evrópusambandsins í viðræðum við bresk stjórnvöld um útgöngu Breta úr ESB.

Boðað hefur verið til fjölda funda innan ESB þar sem samningsdrögin verða rædd og áætlað er að Brexit-samningurinn verði samþykktur á fundi leiðtogaráðsins 25. nóvember, gangi allt samkvæmt áætlun.  

Þrír ráðherr­ar í bresku rík­is­stjórn­inni hafa til­kynnt Th­eresu May for­sæt­is­ráðherra um af­sögn sína í kjöl­far þess að drögin að Brexit-samn­ingnum voru samþykkt í gær. Ljóst er að ekki ríkir sátt um samninginn og að leið Breta út úr Evrópusambandinu er ekki enn orðin greið. 

Umræða um samninginn fer nú fram á breska þinginu og hefur Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, þurft að sæta harðri gagnrýni frá þingmönnum úr öllum flokkum. May varði samninginn og segir að í honum sé farið eftir vilja þjóðarinnar sem kaus að ganga úr Evrópusambandinu með þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir rúmum tveimur árum. May segir að samningurinn tryggi skipulagða útgöngu.

Barnier segir að samningurinn, sem er alls 585 blaðsíður af þungum lagatexta, sé sanngjarn og taki tillit til beggja aðila og leggi grunninn að „metnaðarfullu nýju samstarfi“.

Don­ald Tusk, for­seti leiðtogaráðs Evr­ópu­sam­bands­ins, hrósaði Barnier í morgun fyrir vel unnin störf og segir hann að samningurinn tryggi hagsmuni allra 27 aðildarríkjanna og Evrópusambandsins í heild sinni.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert