Segir El Chapo hafa mútað Interpol

El Chapo í haldi bandarískra stjórnvalda í janúar í fyrra.
El Chapo í haldi bandarískra stjórnvalda í janúar í fyrra. Ljósmynd/Útlendinga- og tollgæsla Bandaríkjanna (ICE)

Fíkniefnabaróninn Joaquin „El Chapo“ Guzman, sem nú er réttað yfir í Bandaríkjunum, greiddi saksóknurum, lögreglu og hernum í Mexíkó háar fjárhæðir í mútur og gerði raunar það sama við Interpol. Þetta fullyrti einn helsti uppljóstrari í málinu gegn El Chapo, sem er meintur leiðtogi Sinaloa-fíkniefnahringsins, fyrir rétti í dag.

Uppljóstrarinn Jesus „El Rey“ Zambada, skýrði frá svimandi fjárhæðum sem varið var til að verja flutning á kókaínsendingum, sem komu frá Kólumbíu, til Mexíkó á leið sinni til Bandaríkjanna. Sagði Zambada kostnaðinn við mútugreiðslur í Mexíkóborg einni hafa numið um 300.000 dollurum á mánuði.

Zambada, sem er bróðir Ismael „El Mayo“ Zambada, eins núverandi stjórnenda Sinaloa, starfaði fyrir samtökin frá 1987 þar til hann var handtekinn árið 2008.

Hann sagði réttinum að sem yfirmaður Sinaloa í Mexíkóborg hefði hann persónulega greitt mútur til skrifstofu ríkissaksóknara, umferðarlögreglunnar sem einnig hefur umsjón með umferð um brýr og flugvelli, sem og til ríkislögreglu, lögreglu í fylkinu og borginni og svo til Interpol.

„Múturnar fyrir embættismenn í Mexíkóborg voru um 300.000 dollarar á mánuði,“ sagði Zambada. Þá kvaðst hann einu sinni hafa greitt 100.000 dollara mútugreiðslu til hershöfðingjans Gilberto Toledano, sem hefur yfirumsjón með Guerrero-fylki, og að það hefði veri gert að beiðni El Chapo.

„Ég var að fara að flytja inn kókaín frá Kólumbíu í gegnum Guerrero [...] og El Chapo sagði við mig: „Farðu og hittu Toledano hershöfðingja. Hann er vinur minn. Gefðu honum 100.000 dollara frá mér.“,“ sagði Zambada.

El Chapo, sem var framseldur til Bandaríkjanna fyrir tæpum tveimur árum, er sakaður um að hafa smyglað yfir 155 tonnum af kókaíni til Bandaríkjanna yfir 25 ára tímabil. Á hann lífstíðardóm yfir höfði sér verði hann fundinn sekur.

Lögfræðingar El Chapo fullyrða hins vegar að hann sé blóraböggull „spilltra“ stjórnvalda í Mexíkó og raunverulegur leiðtogi fíkniefnahringsins sé Ismael Zambada.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert