Nokkur ár mun taka að endurreisa bæinn Paradise, sem varð illa úti í gróðureldum sem geisað hafa í Kaliforníuríki að sögn stjórnanda FEMA, almannavarna Bandaríkjanna.
Brock Long, stjórnandi FEMA, segir skemmdirnar í Paradise vera einar þær verstu sem hann hafi séð. 56 manns hafa til þessa fundist látnir í Butte-sýslu í gróðureldunum sem fóru yfir Paradise og 130 til viðbótar er enn saknað.
Í Kaliforníuríki öllu er nú vitað til þess að 59 manns hafi farist í gróðureldunum, sem loga á þremur stöðum og vinna um 9.400 slökkviliðsmenn nú að því að ráða niðurlögum þeirra.
Ken Pimlott, slökkviliðsstjóri Kaliforníu, segir slökkvistarfið þokast í rétta átt. „Ég vil ítreka að mikil vinna er enn eftir, en við munum halda áfram að vera hérna. Við munum halda áfram þar til þessu er lokið,“ sagði Pimlott.
Átta manns til viðbótar fundist látnir í gær og voru þeir allir í bænum Paradise og næsta nágrenni. Yfirvöld í Butte-sýslu hafa birt lista yfir 103 sem þau telja að sé saknað og eru flestir þeirra eldri borgarar. 7.600 heimili hafa eyðilagst í eldunum til þessa, sem og hundruð annarra bygginga.
Jerry Brown, ríkisstjóri Kaliforníu, sagði ástandið minna mest á „stríðssvæði“ er hann var þar á ferð. „Það var búið að undirbúa mikið í Paradise fyrir svona neyðaratvik, en eldurinn var vissulega án fordæmis og yfirþyrmandi þannig að fólkið var þar fast,“ sagði Brown.
Slökkvilið hefur nú náð tökum á um 35% af Camp-eldunum, sem eru orðnir þeir mannskæðustu í sögu ríkisins.
Þrír létust í Woolsey-gróðureldunum og þar hafa yfir 240 km2 orðið eldinum að bráð, er það svæði sem er stærra að ummáli en borgin Denver og nær m.a. yfir lúxusíbúðahverfi í Malibu. Þar eru þekktir einstaklingar á borð við Miley Cyrus, Gerald Butler og Neil Young í hópi þeirra sem misst hafa heimili sín. 435 byggingar hafa eyðilagst í þeim eldum og hjálparsveitir eru þar enn að störfum, þó að búið sé að hleypa íbúum að 11 svæðum á ný.
Þá hefur slökkvilið náð tökum á um 95% Hill-gróðureldanna, í Ventura-sýslu.