631 er enn saknað

Alls er 631 enn saknað í Norður-Kaliforníu eftir skógareldana og 66 eru látnir. Fjöldi þeirra sem er saknað hefur tvöfaldast á aðeins sólarhring en flestir þeirra sem eru látnir urðu Camp-eldinum að bráð. Tæplega 12 þúsund hús hafa eyðilagst í skógareldunum.

Fórnarlömb Camp-eldsins eru 63 talsins og þrír eru látnir í Woolsey-eldinum sem geisar sunnar í ríkinu.

Forseti Bandaríkjanna, Donald Trump, mun fara til Kaliforníu á morgun til þess að skoða tjónið og ræða þá sem hafa orðið fyrir skaða af völdum eldanna. Um 9.400 slökkviliðsmenn eru nú að störfum í skógareldunum víðs vegar um Kaliforníu.

Í frétt BBC kemur fram að fjöldi þeirra sem er saknað hafi farið úr 300 í 631 í gær og að sögn lögreglustjórans í Butte-sýslu, Kory Honea, skýrist þetta meðal annars af því að farið hafi verið yfir öll útköll og hjálparbeiðnir og listar bornir saman. „Þið verðið að skilja að sú ringulreið sem við erum að glíma við er óvenjuleg,“ sagði hann við fréttamenn í gærkvöldi. 

Hann segist ekki eiga von á öðru en talan yfir þá sem er saknað eigi eftir að rokka til og frá. Honea biður fólk um að hafa samband ef það sjái nafn sitt á listanum eða einhvers sem það þekkir. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert