Yfir þúsund saknað

Yfir eitt þúsund er saknað í norðurhluta Kaliforníu þar sem mannskæðir skógareldar hafa geisað undanfarna viku. Fórnarlömb Camps-eldsins eru 71 talsins auk þess sem nokkrir hafa látist í öðrum eldum í ríkinu.

Til þess að bæta enn á hörmunar íbúanna sem hafa þurft að yfirgefa heimili sín vegna Camp-eldanna þá hefur komið upp nóróveira í nokkrum neyðarskýlanna. Samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum heilbrigðismála hefur 41 veikst og 25 þeirra hafa þurft að leggjast á sjúkrahús.  

Enn er ekki vitað hvað varð til þess að eldurinn kviknaði í upphafi en fórnarlömb hans hafa þegar höfðað mál gegn orkufyrirtæki svæðisins PG&E sem fólk sakar um vanrækslu.

Lögreglustjórinn í Butte-sýslu, Kory Honea, sagði við fréttamenn í gærkvöldi að fjöldi þeirra sem ekki er vitað hvar er hafi farið úr 631 fyrr um daginn í 1.011 og enn væru að berast tilkynningar um fólk sem er saknað. Hann segir að fjöldinn geti breyst hratt því stundum viti fólk ekki af afdrifum vina og ættingja sem síðan reynast heil á húfi.  Þegar hafi 329 sem var tilkynnt að væri saknað fundist heilir á húfi. 

Camp-eldurinn kviknaði 8. nóvember og lagði bæinn Paradise í rúst fljótlega. Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, ætlar að heimsækja hamfarasvæðið í dag og ræða við fórnarlömb eldsins en svæðið sem varð eldinum að bráð er álíka af stærð og stórborgin Chicago.

Í viðtali við Fox News í gærkvöldi dró Trump mjög úr fyrri ásökunum um að stjórn skógræktar Kaliforníu bæri ábyrgð á eldunum. Hann viðurkenndi hins vegar að loftslagsbreytingar gætu hafa haft örlítil áhrif. 

Um 47.200 manns hafa þurft að yfirgefa heimili sín og tæplega 1.200 hafast við í neyðarskýlum. Reykur frá skógareldinum hefur takmarkað lífsgæði fólks víða og í San Francisco þurfti að loka skólum í gær vegna mengunar og eins hættu sporvagnar borgarinnar að ganga. Styrk­ur köfn­un­ar­efn­is­díoxíðs mældist 271 míkró­grömm á rúm­metra í borginni í gær sem er svipað og venjan er í höfuðborg Bangladess, Dhaka, og verri en í Kolkata á Indlandi.

Voru íbúar San Francisco beðnir um að halda sig inni enda væru loftgæðin heilsuspillandi. Er vart hægt að sjá Golden Gate brúna vegna þokumóðu sem liggur yfir öllu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert