Argentínska ríkið hefur ekki efni á að lyfta kafbátinum ARA San Juan af hafsbotni, en brak hans fannst í Atlantshafinu í gær þar sem það hafði legið á hafsbotni í ár. Þetta hefur BBC eftir varnarmálaráðherra landsins.
San Juan hvarf með 44 manna áhöfn og í tilkynningu frá argentínska hernum á Twitter kom fram að brakið hafi fundist á 800 metra dýpi.
Það var áhöfn björgunarskipsins Seabed Constructor, sem er í eigu bandaríska björgunarfyrirtækisins Ocean Infinity, sem fann brakið, en skipið hafði verið við leit á þessum slóðum síðan í september.
Gabriel Attis, yfirmaður argentínska hersins, hefur staðfest að sprenging hafi orðið í kafbátinum. Segir hann skrokk San Juan hafi fallið saman og aflagast og brakið sé nú dreift um 70 metra svæði.
Ættingjar þeirra sem um borð voru krefjast nú þess að stjórnvöld láti koma kafbátinum upp á yfirborðið.
Yolanda Mendiola, móðir eins úr áhöfn kafbátsins segir fjölskyldur áhafnarinnar hafa komið saman til að fá nýjustu fréttir af stöðu mála. Hún hvatti stjórnvöld til að koma brakinu upp. „Ef við sjáum það ekki, þá fáum við ekki lúkningu. Þess vegna ætlum við að krefja forseta Argentínu um að finna leið til að koma þeim upp af því að það er hægt, [Sea Constructor] segir það,“ sagði Mendiola.
Fjarskiptasamband hersins við áhöfn kafbátsins rofnaði 15. nóvember í fyrra en þá var hann í um 450 km fjarlægð frá strönd Argentínu. Kafbáturinn var á leið til hafnar frá Ushuaia, sem er syðsti oddi Argentínu.