„Þetta gæti orðið verulega stórt“

Yfirgefnir bílar nærri Paradise gerðu slökkvilið og hjálparstarfsmönnum erfiðar um …
Yfirgefnir bílar nærri Paradise gerðu slökkvilið og hjálparstarfsmönnum erfiðar um vik að komast að bænum. AFP

Áður en fyrsti neistinn kviknaði blés vindurinn. Að morgni 8. nóvember reis sólin yfir fjöllunum í Sierra Nevada. Vindurinn þaut í gegnum gilin og Matt McKenzie, hjá skógar- og gróðureldastofnun Kaliforníu vaknaði í koju sinni í varðstöðinni við að furunálum rigndi niður á þakið, segir í fréttaskýringu Los Angeles Times af fyrstu stundum gróðureldanna sem nú eru orðnir þeir mannskæðustu í Kaliforníuríki.

Klukkan 6:15 þennan sama morgun bilaði rafmagnslína í nágrenni Poe stíflunnar. Tilkynning um eld barst klukkan 6:29. Korteri síðar stóð McKenzie hjálparvana við stífluna og virti fyrir sér gróðureld sem þegar hafði náð yfir 10 ekru svæði í gilinu, hinum megin árinnar. Slóðin þeim megin hékk í hlíðinni og hrunhættan var það mikil að síðast þegar hann sendi einhvern þar yfir tók það klukkustund að mjaka vinnuvél 1,6 km leið. Að senda einhvern þangað yfir til að slökkva eldinn jafngilti dauðadómi yfir viðkomandi.

McKenzie áttaði sig samstundis á hættunni sem stafaði af eldinum, sem hvirfilvindar í gilinu egndu enn frekar. „Þetta gæti orðið verulega stórt,“ sagði hann í talstöð sína. „Er enn að vinna að því að komast að.“

Loftmynd af rústum eins þeirra hverfa í Paradise sem gjöreyðilögðust …
Loftmynd af rústum eins þeirra hverfa í Paradise sem gjöreyðilögðust í eldunum. AFP

Höfðu lokast inni þegar þyrlurnar komust á loft

Því næst bað hann íbúa næsta bæjarfélags Pulga að yfirgefa staðinn og kallaði til stórvirkar vinnuvélar á borð við jarðýtur, tankbíla með vatni og meiri mannskap.

Vindurinn var hins vegar hraðari og við sólsetur þennan dag hafði eldurinn náð að ferðast 30 km leið. Slökkvilið Kaliforníuríkis flýgur ekki flugvélum sínum ef vindur er of mikill og sú var staðan á þessari stundu.

Þegar flugvélar og þyrlur komust loks á loft höfðu íbúar lokast inni á nokkrum stöðum og fórust í eldunum. Svo var í bænum Paradise. Tala látinna í gróðureldunum er nú komin upp í 76 og fer hækkandi og var mikill meirihluti þeirra íbúar Paradise og nágrennis. Hundruð manna er enn saknað og um 50.000 manns hafa enn ekki getað snúið aftur heim, heldur dvelja ýmist hjá ættingjum, gistihúsum og jafnvel á bílastæði Walmart verslunar sem hefur orðið að eins konar tjaldstæði fyrir þá sem flýja þurftu.

Los Angeles Times segir fórnarlömb og samskipti hjálparstarfsmanna vera á einu máli um að brottflutningur íbúa hafi ekki dugað til. Fyrirvarinn hafi verið of skammur og flóttaleiðir sem tepptust af umferð urðu fyrir vikið að eldgildrum sem hundruð manna neyddust til að flýja á hlaupum.

Hjálparstarfsmaður með líkhund leitar í rústum húsa í bænum.
Hjálparstarfsmaður með líkhund leitar í rústum húsa í bænum. AFP

„Það voru litlir eldar alls staðar“

Eldurinn fór of hratt yfir, mun hraðar en yfirvöld höfðu áttað sig á og hraðar en mögulegt var að fyrirskipa brottflutning á. Eldurinn náði þannig að gleypa heilu hverfin áður en fólk gat flúið.

Eldri borgararnir Susanne og Gilbert Orr voru að borða morgunmat þegar þau sáu eldloga utan við eldhúsgluggann hjá sér. Gilbert hljóp þá út með vatnsslöngu. „En það voru litlir eldar alls staðar, „segir Susan. „Alls staðar.“

Þau bjuggu í Concow, um 7,5 km frá þeim stað þar sem eldurinn kviknaði fyrst. Klukkutíma eftir að McKenzie kom fyrst auga hann voru glæður farnar að falla á bæinn. Fjórum mínútum síðar kviknaði í fyrsta húsinu og mínútu síðar barst tilkynning um að yfirgefa bæjarfélagið.

Orr hjónin flúðu með hundi sínum Duke og börðu á flóttanum frá sér glæðurnar sem blésu inn um brotna rúðu í bílnum. Ekki fór jafn vel fyrir öllum íbúum Concow, sem sumir flúðu út í á til að forðast eldana. Átta voru með brunasár á yfir helmingi líkama síns og níræðum manni var bjargað úr ánni með ofkælingu.

Paradise Inn hótelið í samnefndum bæ stendur hér í ljósum …
Paradise Inn hótelið í samnefndum bæ stendur hér í ljósum logum. AFP

Rýmdu bara austurhluta Paradise

Slökkviliðsmenn vissu á meðan að Concow brann að bærinn Paradise væri í hættu og tilkynnti slökkviliðsstjóri kl. 7.46 um morguninn að rýma þyrfti austurhluta bæjarins. Klukkutími leið þar til íbúum hinna bæjarhlutanna var gert að yfirgefa bæinn.  Tveimur mínútum eftir var umferðin komin í hnút.

Hjúkrunarkonan og Paradise-búinn Nichole Jolly vissi hvað var að gerast. Hún hafði fengið textaskilaboð frá eiginmanni sínum fyrr um morguninn. „Eldur“ skrifaði hann. „Risastór.“

Hún var meðal þeirra sem flúðu hlaupandi úr bílum sínum. „Ég get ekki dáið svona“ sagði hún við sjálfa sig“. „Ég ætla ekki að deyja sitjandi í bíl. Ég verð að hlaupa.“  Hún stakk sér blindandi út í reykinn. Sólarnir á skónum hennar bráðnuðu. Það kviknaði í fötum hennar og hún fékk blöðrur á fæturna er hún hljóp með hendurnar fyrir framan sig þar til hún lenti á slökkviliðsbíl. Slökkviliðsmenn hjálpuðu henni inn og sendu inn hjálparbeiðni um meira vatn. „Vonlaust“ var svarið sem barst úr talstöðinni. „Þið verðið að snúa fólki til baka að spítalanum,“  Á leið þeirra til baka í gegnum eldinn fóru þau framhjá fjölda brunninna bíla, en spítalinn reyndist enn standa.

Alexandria Wilson hljóp líka til að flýja eldinn  sem logaði í byggingum beggja vegna vegarins. „Farðu bara“ kallaði lögreglumaður til hennar. „Taktu hvaða bíl sem þú getur. „Bara farðu“. Inniskór Wilson, sem var komin sjö mánuði á leið, bráðnuðu á hlaupunum og hún sá hvergi kærasta sinn. „Guð minn góður,“ hugsaði hún. „Hvað á ég að gera við son minn? Hvað á ég að gera?“

Svipuð staða var víða uppi í Paradise og umferðahnútar voru alls staðar og gerðu rústir brunninna bíla á vegum eftir að gera hjálparstarfsmönnum og slökkviliði erfitt um vik að komast til bæjarins. Jarðýtur voru fengnar til að ryðja bílum af vegum, en að lokum voru vatnsbirgðir bæjarins á þrotum.

Jhonathan Clark var orðlaus er hann kom að rústum heimilis …
Jhonathan Clark var orðlaus er hann kom að rústum heimilis síns í Paradise. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert