Vildu komast inn í breska vegabréfakerfið

Vadim féllst á að aðstoða rússnesku leyniþjónustuna og skömmu síðar …
Vadim féllst á að aðstoða rússnesku leyniþjónustuna og skömmu síðar varð hann var við að einhver utanaðkomandi var kominn inn í tölvukerfið. EPA

Rússneskur forritunarsérfræðingur segir rússnesku leyniþjónustuna hafa beðið sig að útbúa bakdyr að tölvukerfinu sem notað er til að útbúa vegabréfsáritanir fyrir Rússa sem ferðast til Bretlands. Frá þessu er greint á vef BBC, sem segir manninn, sem ekki vill láta nafns síns getið, nú hafa óskað eftir hæli í Bandaríkjunum.

Maðurinn ræddi við vefmiðilinn Bellingcat, sem rannsakaði fullyrðingar hans og birti í dag frétt um málið. BBC segir að þótt ómögulegt sé að sannreyna ýmislegt sem fram komi í máli hans sé það sem þar kemur fram að mati sérfræðinga í samræmi við þær aðgerðir sem rússneska leyniþjónustan stundi.

https://www.bbc.com/news/world-europe-46237634

Ekki liggur fyrir hvort beiðnin tengist ferð rússneskra leyniþjónustumanna til Bretlands í mars á þessu ári, þegar eitrað var fyrir rússneska gagnnjósnaranum Sergei Skripal og Yuliu dóttur hans í bresku borginni Salisbury.

Bauðst til að láta vandamál hans hverfa

Maðurinn, sem kallaður er Vadim í fréttinni, starfaði fyrir fyrirtækið TLScontact, sem sér um hugbúnaðarþjónustu fyrir sendiráð og ræðismannsskrifstofur sem veita vegabréfaþjónustu. Sér fyrirtækið um að vinna og senda gögnin til Bretlands þar sem lokaákvarðanir um vegabréfsáritanir eru teknar.

Vadim starfaði um tíma fyrir fyrirtækið í Kína og kvæntist er hann bjó þar úti. Hann lenti síðar í erfiðleikum með að koma fjölskyldu sinni til landsins er hann flutti til baka til Rússlands í lok árs  2015. Það var svo í apríl 2016  sem  maður kom að máli við hann og bauðst til að láta vanda hans hverfa.

Til þess að það gerðist þyrfti hann hins vegar að samþykkja að vinna með rússnesku leyniþjónustunni FSB. Var honum sagt að FSB vildi fá upplýsingar um starfsemi TLScontact og um netkerfi þess.

Segist Vadim hafa fallist á þetta og að skömmu síðar hafi hann orðið var við að einhver utanaðkomandi væri kominn inn í kerfið. Fleiri kröfur fylgdu í kjölfarið og segist hann þá hafa reynt að yfirgefa landið. Hann var hins vegar stoppaður og varaður við að reyna slíkt.

Þá var hann beðinn um að greina FSB frá umsóknum um vegabréfsáritanir frá einstaklingum sem leyniþjónustan fylgdist með, sem og flæði vegabréfsumsókna og greina þar mynstur þess hvernig umsóknir fengjust helst samþykktar. Vadim átti svo einnig að veita persónuupplýsingar um þá sem sóttu um áritun.

Vadim segir að hann hafi að lokum verið beðinn um að útbúa bakdyr, aðgang að vegabréfakerfi bresku ræðismannsskrifstofunnar. Telur hann að FSB hafi með því ætlað að fylgjast með upplýsingum sem veittar voru í Rússlandi og mögulega koma í veg fyrir að hluti þeirra bærist til Bretlands.

Hann fullyrðir þó að hann hafi ekki útbúið bakdyrnar, heldur hafi hann náð að flýja land í september 2016. Hann flúði til Bandaríkjanna með fjölskyldu sinni og óskaði þar eftir hæli.

BBC hefur eftir Vadim að hann hafi haft samband við MI6 eftir að hann kom til Bandaríkjanna til að láta vita af málinu, en hann hafi aldrei fengið nein svör. Það sama hafi gerst þegar hann reyndi að láta TLScontact vita af málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka