Airbnb fjarlægir íbúðir á Vesturbakkanum

Stjórnendur Airbnb hafa lengi verið gagnrýndir fyrir að leyfa útleigu …
Stjórnendur Airbnb hafa lengi verið gagnrýndir fyrir að leyfa útleigu á íbúðum á nýlendum Ísraela. AFP

Íbúðamiðlunin Airbnb hefur ákveðið að fjarlægja íbúðir sem skráðar eru í landnemabyggðum Ísraela á Vesturbakkanum, af vefsíðu sinni. Samkvæmt upplýsingum frá Airbnb var ákvörðunin tekin vegna þess að svæðið sé miðpunktur átaka á milli Ísrael og Palestínu. BBC  greinir frá.

Palestínumenn hafa tekið ákvörðun Airbnb vel en Ísraelsbúar segja hana skammarlega og hafa hótað lögsóknum.

Stjórnendur Airbnb hafa lengi verið gagnrýndir fyrir að leyfa útleigu á íbúðum á nýlendum Ísraela á svæðinu, sem eru ólöglegar samkvæmt alþjóðalögum. Í yfirlýsingu frá fyrirtækinu segir að bandarísk lög segi til um að fyrirtæki líkt og Airbnb megi stunda viðskipti á svæðinu, en að alþjóðasamtök séu á móti því að fyrirtæki græði á svæði þar sem fólk hefur verið sent á landflótta.

Vesturbakkinn er staðsettur vestur af Jórdan-fljóti og var áður stjórnað af heimastjórn Palestínu, en Ísraelsher hefur að hluta tekið völd á svæðinu.

Mannréttindasamtök hafa hrósað Airbnb og hvatt önnur alþjóðleg fyrirtæki til að hætta viðskiptum á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert