Sex kíló af plasti fundust í maga dauðs búrhvals sem skolaði á land í Indónesíu í gærkvöldi. Meðal þess sem finna mátti í maga hvalsins voru 115 plastglös, fjórar plastflöskur, 25 plastpokar og flip-flop sandalar.
Hræið af hvalnum, sem er um 9,5 metrar að lengd, fannst í flæðamálinu á Kapota-eyju í Wakatobi þjóðgarðinum í gær. Fundurinn hefur vakið skelfingu meðal umhverfisverndarsinna.
„Þó svo að það sé ekki búið að finna dánarosrök hvalsins er það sem blasir við okkur algjör hryllingur,“ segir Dwi Suprapti, verndari sjávardýra hjá náttúruverndarsamtökunum World Wildlife Fund (WWF) í Indónesíu, í samtali við BBC.
Samtökin hafa birt lista á Twitter-síðu sinni þar sem farið er nákvæmlega yfir plastið sem fannst í maga hvalsins og er hann svohljóðandi:
Harðplast (19 stykki, 140 grömm), plastflöskur (fjögur stykki, 150 grömm), plastpokar (25 stykki, 260 grömm), flip-flop sandalar (2 stykki, 270 grömm), garn (3,26 kíló) og plastglös (115 stykki, 750 grömm).
Sobat, seekor Paus Sperma (Physeter macrocephalus) terdampar di Pulau Kapota, Wakatobi dlm kondisi sdh membusuk (18/11). Kondisi paus saat ditemukan tdk baik & bagian tubuhnya sdh tdk lengkap. Pihak berwenang tdk bisa melakukan nekropsi u/ mengetahui penyebab kematian paus tsb. pic.twitter.com/O1ywAr7hbD
— WWF-Indonesia (@WWF_ID) November 19, 2018