85 þúsund börn sultu til bana

Ghazi Saleh er tíu ára gamall en þessi mynd var …
Ghazi Saleh er tíu ára gamall en þessi mynd var tekin í fyrradag. Ekki er vitað hvort hann er enn á lífi. AFP

Allt að 85 þúsund börn yngri en fimm ára hafa soltið til bana eða dáið úr farsóttum í Jemen á síðustu þremur árum. Óttast er að hungursneyð herji á 14 milljónir Jemena ef ekkert verður að gert. Íbúar landsins eru 28 milljónir talsins og er því helmingur þjóðarinnar í bráðri lífshættu. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýjum upplýsingum frá mannúðarsamtökunum Save the Children.

Þar kemur fram að upplýsingarnar byggi á gögnum frá Sameinuðu þjóðunum en stríðið í Jemen hófst fyrir rúmum þremur árum með uppreisn húta sem njóta stuðnings klerkastjórnarinnar í Íran og hafa náð stórum hluta Jemens á sitt vald, meðal annars höfuðborginni Sana. Sádi-Arabía og fleiri arabaríki hafa gert loftárásir á yfirráðasvæði uppreisnarmannanna og notið stuðnings stjórnvalda í Bandaríkjunum, Bretlandi og Frakklandi.

AFP

Á meðal þeirra sem þurfa aðstoð vegna matvælaskorts eru meira en sjö milljónir barna, að sögn embættismanna Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF.

Á sama tíma og eitt barn deyr af völdum byssukúlu eða í sprengjuregni þá sveltur tylft til bana og það er eitthvað sem við getum komið í veg fyrir,“ segir Tamer Kirolos, sem stýrir starfi Save the Children í Jemen.

AFP

„Börn sem deyja á þennan hátt kveljast óheyrilega þegar virkni líffæra dregst saman og hættir að lokum,“ segir hann og bætir við að ónæmiskerfi þeirra sé svo veikburða að þau séu ekki með neinar varnir gegn sýkingum og sum séu svo viðkvæm að þau geti ekki einu sinni grátið. Á sama hátt eru foreldrar þeirra svo veikburða að þeir geta ekkert gert annað en horfa á börn sín tærast upp og deyja.

Höfnin í Hodeida, en þar er skipað upp um 80% þeirra matvæla sem flutt eru til landsins, hefur verið í herkví hersveita undir stjórn Sádi-Araba frá því á síðasta ári.

AFP

Samtökin Save the Children segja að þau hafi neyðst til þess að senda vistir sem eiga að fara til Norður-Jemen í gegnum hafnarborgina Aden sem er í suðurhluta landsins. Þetta hafi haft gríðarleg áhrif á flutningsgetuna og tafið flutninga umtalsvert.

AFP

Eins hafi loftárásum fjölgað gríðarlega í Hodeida að undanförnu. Undanfarnar vikur hafi verið gerðar hundruð loftárása í og við Hodeida en um 150 þúsund börn eru föst í borginni. Samtökin Save the Children fara fram á að bundinn verði endir á átökin strax svo hægt verði að koma í veg fyrir að enn fleiri deyi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert