Bandarískur ferðamaður fannst látinn eftir árás ættbálks á afskekktu indversku eyjunni North Sentinel Island. Ættbálkar á eyjunni, sem tilheyrir Andaman-eyjaklasanum, njóta verndar og ólöglegt er að hafa við þá samskipti, bæði til þess að tryggja varðveislu lifnaðarhátta þeirra og vernda þá fyrir sjúkdómum.
John Chau, sem var 27 ára gamall, fékk að fljóta með heimamönnum á veiðum til eyjaklasans en lagði svo af stað, einn síns liðs, til North Sentinel-eyju á kanó.
Um leið og hann steig fæti á eyjuna rigndi yfir hann örvum, og er málið rannsakað sem morð. Sjö hafa verið handtekin í tengslum við málið, þar af fimm sjómenn sem fluttu trúboðann til eyjarinnar.
Chau hafði lengi reynt að komast til eyjunnar og tókst það loks með því að bjóða sjómönnum pening fyrir að leyfa sér að fljóta með þeim hluta af leiðinni. Sjómennirnir sáu þegar Chau komst í land á eyjunni, þegar hann varð fyrir árásinni og þegar fulltrúar ættbálksins bundu reipi um háls hans og drógu líkama hans af ströndinni.
Sjómennirnir urðu skelkaðir og forðuðu sér, en komu að líki Chau í sjávarborðinu næsta dag.