Pólverjar una úrskurði Evrópudómstólsins

Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands.
Mateusz Morawiecki, forsætisráðherra Póllands. AFP

Ríkisstjórn Póllands hefur gefið það út að hæstaréttardómarar, sem vikið var úr embætti í kjölfar umdeildra lagabreytinga, verði ráðnir til starfa að nýju. Mánuður er síðan Evrópudómstóllinn úrskurðaði að lögin, sem lækkuðu eftirlaunaaldur dómara við hæstarétt landsins úr 70 í 65 ár, væru ólögleg. BBC greinir frá.

Á grundvelli laganna höfðu 20 hæstaréttardómarar þurft að láta af störfum og ríkisstjórnin skipað eigin fulltrúa þeirra í stað. Małgorzata Gersdorf, forseti réttarins, sem er 65 ára gömul, hafði lýst lagabreytingunni sem „hreinsunum“ og neitað að hætta.

„Við erum að uppfylla skuldbindingar okkar,“ sagði dómsmálaráðherra landsins, Zbigniew Ziobro, þegar hann tilkynnti þingheimi um ákvörðun stjórnarinnar um að afturkalla breytingarnar.

Sagðar grafa undan réttarríkinu

Andstæðingar frumvarpsins höfðu sagt tilgang þess að tryggja yfirráð stjórnarflokksins, Laga og réttlætis (PiS), yfir dómskerfinu. Stjórnarliðar höfðu aftur á móti sagt lagabreytingunni ætlað að auka skilvirkni réttarins og fjarlægja dómara sem skipaðir höfðu verið á tímum kommúnistastjórnarinnar, fyrir 1989.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins hafði einnig mótmælt breytingunum og sagt þær grafa undan réttarríkinu (e. the rule of law). Hafði framkvæmdastjórnin hótað að virkja „kjarnorkuákvæði“ Lissabon-sáttmálans, sem gerir sambandinu mögulegt að svipta aðildarríki atkvæðarétti sínum á fundum leiðtoga- og ráðherraráðs sambandsins. Þeirri grein hefur aldrei verið beitt.

Mótmæli gegn lagabreytingunum höfðu verið haldin í stærstu borgum Póllands.
Mótmæli gegn lagabreytingunum höfðu verið haldin í stærstu borgum Póllands. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka