Pyntaðar í boði yfirvalda í Sádi-Arabíu

Loujain al-Hathloul.
Loujain al-Hathloul. Wikipedia

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa fangelsað að minnsta kosti tíu konur og sjö karla sem þau segja ógn við þjóðaröryggi en fólkið hefur tekið þátt í starfi mannúðarsamtaka. Fólkið hefur verið pyntað og beitt öðru ofbeldi í varðhaldi, samkvæmt upplýsingum frá Amnesty International.

Meðal þeirra eru konur, Loujain al-Hathloul, Eman al-Nafjan og Aziza al-Yousef, sem hafa barist fyrir rétti kvenna til þess að keyra en banni við akstri kvenna var aflétt í júní. 

Samkvæmt upplýsingum sem Amnesty fékk frá þremur aðgerðasinnum var þeim ítrekað gefið raflost og þau hýdd. Sum voru svo illa farin eftir ofbeldið þau gátu hvorki gengið né staðið upprétt. Eitt þeirra var fest við loft klefans og látið hanga. Eins var ein konan beitt kynferðislegu ofbeldi af hálfu þeirra sem yfirheyrðu hana en ofbeldismennirnir voru með grímur fyrir andlitinu. 

Lynn Maalouf, sem stýrir rannsóknarstarfi Amnesty í Mið-Austurlöndum, segir að aðeins nokkrum vikum eftir að blaðamaðurinn Jamal Khashoggi var drepinn með hrottalegum hætti komi fram vitnisburður þessa fólks sem var beitt pyntingum, kynferðislegu ofbeldi og annarri illri meðferð. Þetta varpi enn frekara ljósi á hrottaleg mannréttindabrot af hálfu yfirvalda í Sádi-Arabíu.

Hluti aðgerðasinnanna hefur ekki enn losnað við ósjálfráðan skjálfta í höndum og þau bera ör eftir pyntingarnar. Ein þeirra reyndi ítrekað að fremja sjálfsvíg á meðan hún var í haldi, segir í skýrslu Amnesty sem fjallað er um í Guardian. 

Al-Hathloul, sem er á þrítugsaldri, var haldið í einangrun í þrjá mánuði eftir að hún var handtekin í maí. Hún var við háskólanám í Abu Dhabi þegar hún var neydd til þess að snúa aftur til heimalandsins fyrr á árinu. Eiginmaður hennar var þvingaður til þess að skilja við hana þegar hann var neyddur til þess að koma til Sádi-Arabíu frá Jórdaníu þar sem hann starfar. Þetta segja vinir þeirra hjóna og ættingjar en enginn þorir að koma fram undir nafni af ótta við afleiðingar. 

Meðal þeirra sem voru fangelsaðir í þessum aðgerðum eru rithöfundurinn og aðgerðasinninn Mohammad al-Rabea og mannréttindalögmaðurinn og verjandi al-Hathloul þegar hún var handtekin árið 2014, Ibrahim al-Modeimigh. Þá var hún handtekin og haldið í varðhaldi í 70 daga fyrir tilraun til þess að keyra frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum til Sádi-Arabíu. 

Jafnframt er Samar Badawi einn þeirra aðgerðasinna sem eru í haldi en bróðir hans, Raif Badawi, afplánar tíu ára dóm fyrir að hafa gagnrýnt konungríkið í bloggfærslu. Hann var jafnframt hýddur opinberlega árið 2015 fyrir skrifin. 

Auk þess er aðgerðasinninn Nassima al-Sada í haldi en hún er prófessor í sögu Persaflóa. Hún fékk nýverið Academic Freedom-verðlaunin sem afhent eru af hálfu stofnunar í Mið-Austurlandafræðum í Arizona. 

Frétt Guardian í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert