Maður lést á Sheremetyevo-flugvellinum í Moskvu í Rússlandi í gærkvöld þegar flugvél í flugtaki keyrði á hann. Samkvæmt rússneskum fréttamiðlum hafði maðurinn millilent á flugvellinum á leið sinni frá Spáni til Armeníu.
Manninum hafði verið fylgt af lögreglu að hliðinu þar sem hann átti að fara um borð í vélina til Armeníu, en hann hafði lent í útistöðum við annan mann um borð í flugvélinni frá Spáni.
Hann fór hins vegar ekki um borð í rútu sem flutti farþega um borð í vélina. Skömmu síðar varð hann fyrir flugvél í flugtaki sem var á leið til Aþenu í Grikklandi, en atvikið átti sér stað klukkan 20 í gærkvöldi að staðartíma. Maðurinn var 25 ára gamall.
Meðal muna sem rannsakendur fundu dreifða um flugbrautina var dúnn úr jakka mannsins og reimar úr skónum hans. Talsmenn flugvallarins hafa enn ekki gefið út yfirlýsingu vegna málsins, en það er ekki rannsakað sem glæpsamlegt athæfi að svo stöddu.
Flugvélin sem maðurinn varð fyrir var skoðuð við lendingu í Aþenu. Á henni sást að hún hafði orðið fyrir hnjaski. Flugfélagið Aeroflot tilkynnti um seinkun á nokkrum flugferðum vegna lokunar flugbrautar á Sheremetyev-flugvellinum, einum stærsta flugvelli Moskvu.