May bjartsýn á að ESB samþykki Brexit

Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, …
Jean-Claude Juncker, forseti framkvæmdastjórnar ESB, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, funduðu um útgöngu Breta úr ESB í gærkvöldi. AFP

Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, átti tveggja tíma fund með Jean Claude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB í gærkvöldi en honum lauk án niðurstöðu. Þrátt fyrir það er May bjartsýn á að Brexit-samningurinn verði staðfestur af leiðtogum aðildarríkja Evrópusambandsins á sunnudag, líkt og lagt hefur verið upp með.

Ráðherr­ar aðild­ar­ríkja Evr­ópu­sam­bands­ins hafa samþykkt drög að samn­ingi um út­göngu Bret­lands úr sam­band­inu en viðræðum um hvernig eigi að marka framtíðar­stefnu sam­bands­ins í sam­skipt­um við Bret­land eft­ir út­göng­una er ólokið. Spánverjar hafa til að mynda sagt að þeir muni ekki samþykkja samninginn nema að orðalagi um Gíbraltar verði breytt. May og Pedro Sánchez, forsætisráðherra Spánar, ræddu saman símleiðis í gærkvöldi.

Einnig á eftir að semja um hvort aðlög­un­ar­tím­i Bretlands eftir útgönguna verði lengdur. Sam­kvæmt áætl­un mun Bret­land ganga úr sam­band­inu 29. mars á næsta ári, en mun halda stöðu sinni inn­an sam­eig­in­lega efna­hags­svæðis­ins í 21 mánuð til viðbót­ar til að gefa viðsemj­end­um tæki­færi á að leit­ast eft­ir viðskipta­samn­ing­um.

May fer aftur til Brussel á laugardag

May sagði eftir fundinn í gær að árangur hefði náðst en að enn væru nokkur úrlausnarefni sem ætti eftir að ná sátt um. BBC greinir frá því að May fari aftur til Brussel á laugardag, degi áður en til stendur að staðfesta samninginn. Úrlausnarefnin sem May nefndi eru til að mynda aðgangur Breta að innri markaði ESB og réttindi til fiskveiða í breskri landhelgi.

Ef allt gengur samkvæmt áætlun munu leiðtogar aðildarríkjanna 27 undirrita pólitíska yfirlýsingu á sunnudag þar sem framtíðarsamband Bretlands og Evrópusambandsins eftir útgöngu Breta úr sambandinu verður útlistað. Yfirlýsingin verður viðbót við drög­in að samn­ingi um út­göngu Breta úr sam­band­inu, sem 585 blaðsíðna skjal, en búist er við að yfirlýsingin verði mun styttri, eða um 20 blaðsíður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert