Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa hafist handa við að loka og fjarlægja ummerki stærsta hundasláturhúss landsins, sem er staðsett í Seongnam-borg skammt frá höfuðborginni Seúl. Ráðgert er að svæðið verði orðið að almenningsgarði innan tveggja daga.
Greint er frá því á vef BBC að um milljón hundum sé slátrað til manneldis á ári hverju í Suður-Kóreu, en kallað hefur verið eftir því að siðurinn verði lagður niður um nokkurt skeið.
Hundakjöt hefur þótt lostæti í Suður-Kóreu en talið er að viðhorf þjóðarinnar sé að breytast.
Forsvarsmenn kóresku dýraverndunarsamtakanna segja lokun sláturhússins sögulega og að hún sé gott fordæmi fyrir önnur sláturhús í landinu, sem nú geti einnig hætt starfsemi og hraðað dvínun hundakjötsiðnaðarins í landinu.
Nokkur hundruð hundar voru taldir vera í sláturhúsinu á hverjum tíma, og segja aðgerðasinnar aðstæður þar hafa verið hræðilegar. Raflost og hnífar hafi verið notað til þess að slátra hundunum.