Umdeild ættbálkaferðamennska

Ætt­bálk­ar á eyj­unni, sem til­heyr­ir Andaman-eyja­klas­an­um, eru fimm talsins og …
Ætt­bálk­ar á eyj­unni, sem til­heyr­ir Andaman-eyja­klas­an­um, eru fimm talsins og njóta allir vernd­ar. AFP

Andlát banda­rísks manns sem varð fyrir árás ætt­bálks á North Sent­inel-eyju í Ind­lands­hafi í síðustu viku hefur vakið upp spurningar um svokallaða ættbálkaferðamennsku (e. tribal tourism) sem er stunduð er í leyni á Andaman-eyjaklasanum.

Um leið og John Allen Chau steig fæti á eyj­una rigndi yfir hann örv­um frá eyjaskeggjum og er málið rann­sakað sem morð. Sjö hafa verið handtekin í tengslum við málið, þar af fimm sjómenn sem fluttu trúboðann til eyjarinnar. Chau hafði borgað sjó­mönn­um á Andaman-eyj­um 25.000 rúpíur, eða sem nemur um 43.000 krónum, til að sigla með hann að eyj­unni, en þangað ætlaði hann til að boða kristni.

Ætt­bálk­ar á eyj­unni, sem til­heyr­ir Andaman-eyja­klas­an­um, eru fimm talsins og njóta allir vernd­ar. Ólög­legt er að hafa við þá sam­skipti, bæði til þess að tryggja varðveislu lifnaðar­hátta þeirra og vernda þá fyr­ir sjúk­dóm­um.

Hálf milljón ferðamanna á ári

Tveir af ættbálkunum fimm hafa aldrei blandast öðrum ættbálkum, þar á meðal ættbálkurinn á North Sentinel eyjunum, og er því afar eftirsóknarvert hjá þeim 500.000 ferðamönnum sem heimsækja eyjaklasann árlega að berja þá augum.

Fyrr á þessu ári setti innanríkisráðuneyti Indlands ný lög þess efnis að erlendir ferðamenn þurfa að sækja um sérstakt ferðaleyfi til að mega heimsækja eyjarnar 29. Þá er innfæddum sem og útlendingum meinað að koma inn­an við fimm kíló­metra frá eyj­unum þar sem ættbálkarnir búa.

Þrátt fyrir hertar reglur láta sumir ferðamenn ekki segjast og leggja ýmislegt á sig til að fara til eyjanna. Til ársins 2013 var greiðasta leiðin frá Baratang-eyju en frá henni liggur svokölluð aðalleið um Andaman-klasann en ferðamönnum hefur verið bannað að nota hana eftir að upp komst um lögreglumenn á eyjunni sem þáðu greiðslu frá ferðamönnum fyrir að láta sex konur af Jarawa-ættbálknum dansa fyrir ferðamennina.

„Yfirvöld hafa alla tíð lagð höfuðáherslu á að vernda innfædda og þeirra lífsviðurværi,“ segir Manish Chandi, fulltrúi umhverfisverndarráðs Andaman-eyjaklasans, sem hefur rannsakað eyjarnar síðustu 18 ár.

North Sentinel-eyjurnar eru frekar afskekktar, í um 50 kílómetra frá …
North Sentinel-eyjurnar eru frekar afskekktar, í um 50 kílómetra frá Port Blair, höfuðborg Andaman-eyjaklasans. Kort/Google

Múta sjómönnum til að nálgast ættbálkinn

North Sentinel-eyjurnar eru frekar afskekktar, í um 50 kílómetra frá Port Blair, höfuðborg Andaman-eyjaklasans, en það stöðvar ekki ferðamenn að leggja leið sína þangað, þrátt fyrir að strandgæslan sé með reglulegt eftirlit við eyjarnar. Helsta leiðin sem ferðamenn nota er sú sama og Chau gerði, með því að múta sjómönnum sem búa á hinum eyjunum.

176 ferðaþjónustufyrirtæki eru starfandi á eyjunum en tvö stærstu þeirra sem blaðamaður BBC ræddi við sögðu að engin ættbálkaferðamennska væri stunduð á eyjunum.

„Lögreglueftirlit er strangt og fylgst er með ferðum fólks þegar það fer í gegnum svæði ættbálkanna,“ segir M Vinod, forstjóri samtaka ferðaþjónustuaðila á eyjunum. Hann segir að andlát Chau hafi verið einstakt tilvik.

Vinod segir einnig að yfirvöld ættu að slaka á kröfum um útgefin ferðaleyfi. Þegar hann er spurður um hvort það ætti einnig við um eyjar eins og North Sentinel segir hann að það sé í höndum yfirvalda að ákveða hvaða eyjum verði komið á framfæri.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert