Verði ekkert að gert til að sporna gegn loftlagsbreytingum þá mun bandarískt efnahagslíf tapa mörg hundruð milljörðum dala auk þess sem lífi og heilsu fólks verður ógnað. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu sem var unnin fyrir bandarísk yfirvöld.
Skýrsluhöfundar segja að þær ákvarðanir sem séu teknar í dag hafi mikið um það að segja hver þróunin í loftlagsmálum verði í framtíðinni og hvaða áhættu menn komi til með að standa frammi fyrir.
Fram kemur á vef BBC, að skýrsla 4th National Climate Assessment segi að loftlagsbreytingar hafi áhrif á heilsu manna og öryggi, lífsgæði og hagvöxt.
Niðurstaðan er þvert á stefnu ríkisstjórnar Donalds Trumps Bandaríkjaforseta hvað varðar notkun á jarðefnaeldsneyti.
Það var ansi kalt í veðri í Washington, höfuðborg Bandaríkjanna, í vikunni þegar Trump skrifaði á Twitter: „Hvað varð eiginlega um hnattræna hlýnun?“
Vísindamennirnir sem unnu að gerð skýrslunnar minnast ekkert á skoðanir forsetans. En þeir svara aftur á móti spurningu hans á mjög ítarlegan máta.
Þeir segja að hnattræn hlýnun sé vandamáli Bandaríkjunum. Málið sé alvarlegt og það verði að bregðast hratt við og taka verði á málinu af festu, annars muni þetta hafa miklar hörmungar og eyðileggingu í för með sér.
Tvennt vekur sérstaka athygli í skýrslunni. Í fyrsta lagi hversu ítarlega er farið yfir áhrif loftlagsbreytinga í Bandaríkjunum og mörg dæmi tekin til útskýringa.
Í öðru lagi, þá er sérstaklega fjallað um efnahagsleg áhrif hnattrænnar hlýnunar, en stjórnvöld í Washington hafa lagt áherslu á hagvöxt fremur en að herða reglur hvað varðar umhverfismál.
Skýrsluhöfundar benda m.a. á að loftlagsbreytingar geti veikt innviði í landinu, valdið uppskerubresti og dregið úr framleiðni verkafólks, sem allt hafi áhrif á bandarískt efnahagslíf með beinum hætti.
Talsmenn Hvíta hússins í Washington segja að skýrslan sé ónákvæm, en fjölmargar bandarískar stofnanir komu að gerð hennar.
Lindsay Walters, talskona Hvíta hússins, segir að hún byggi aðallega á öfgafullum sviðsmyndum, ekki sé tekið tillit til tæknibreytinga í framtíðinni og að búist sé við mjög mikilli fólksfjölgun.