Loka landamærunum í Kaliforníu

Fyrst var öll umferð ökutækja stöðvuð en síðar var landamærunum …
Fyrst var öll umferð ökutækja stöðvuð en síðar var landamærunum einnig lokað fyrir gangandi vegfarendum. AFP

Bandarísk stjórnvöld lokuðu í kvöld San Ysidro-landamærunum í suðurhluta Kaliforníu eftir að hópur hælisleitenda frá Mið-Ameríku reyndi að brjóta sér leið inn í Bandaríkin við landamæri mexíkósku borgarinnar Tijuna.

Fram kemur í færslu landamæraeftirlitsins í San Diego á Twitter að bæði norður- og suður- landamærunum hefur verið lokað. Fyrst var öll umferð ökutækja stöðvuð en síðar var landamærunum einnig lokað fyrir gangandi vegfarendum.

Myndskeiðum sem dreift hefur verið á samfélagsmiðlum á borð við Twitter sýna fjölda hælisleitenda reyna að komast yfir landamærin. Hermenn standa vörð um landamærin og hafa þeir meðal annars beitt táragasi gegn þeim sem reyna að komast yfir þau.

Alls eru um sex þúsund banda­rísk­ir her­menn við landa­mær­in og hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sagt að ekk­ert sé því til fyr­ir­stöðu að fjölga þeim enn frek­ar.

Hælisleitendurnir skipta þúsundum og koma flestir frá Mið-Ameríku. Fólkið óttast að það muni sitja fast í Mexíkó á meðan umsókn þeirra um hæli í Bandaríkjunum er til meðferðar en nú þegar er talið að nokkur þúsund hælisleitendur hafist við í Tijuana í þeirri von að komast til Bandaríkjanna.

Marcelo Ebr­ard, verðandi ut­an­rík­is­ráðherra Mexí­kó, sagði fyrr í dag að ekk­ert sam­komu­lag hef­ur náðst milli ráðamanna í Mexí­kó og Banda­ríkj­un­um um mál hæl­is­leit­enda sem bíða á landa­mær­um land­anna tveggja eft­ir því að kom­ast inn í Banda­rík­in.

Það er þvert á það sem Trump greindi frá á Twitter í gær, en þar sagði hann að samkomulag hefði náðst við stjórnvöld í Mexíkó um að flóttamennirnir yrðu í Tijuana þar til umsókn þeirra um hæli hefði verið tekin til meðferðar.

Alls eru um sex þúsund banda­rísk­ir her­menn við landa­mær­in.
Alls eru um sex þúsund banda­rísk­ir her­menn við landa­mær­in. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert