Nýnasisti á leið fyrir dóm

AFP

Réttarhöld yfir bandarískum nýnasista hefjast í dag en hann er ákærður fyrir morð þegar hann ók bifreið sinni á mikilli ferð inn í hóp mótmælenda í bænum Charlottesville 12. ágúst 2017. 32 ára gömul kona, Heather Heyer, lést þegar hann ók inn í mannþröngina. 

James Fields, sem er 21 árs, er fé­lagi í samtökum sem telja hvíta kynstofninn öðrum æðri og höfðu félagar í slíkum samtökum komið saman í bænum til að mót­mæla niðurrifi stytt­unn­ar af Robert E. Lee, hers­höfðingja Suður­ríkj­anna í þræla­stríðinu

Einn helsti forsprakki mót­mæl­anna heit­ir Ja­son Kessler og er virk­ur liðsmaður í hreyf­ingu hægri öfga­manna. En til viðbót­ar Kessler og fé­lög­um ákváðu marg­ir hóp­ar til viðbót­ar að mæta og taka þátt, m.a. nýnas­ist­ar og Ku Klux Klan. Aðrir hóp­ar sem áttu full­trúa á svæðinu kalla sig t.d. Identity Evr­opa, Proud Boys, Tra­diti­ona­list Wor­kers Party og American Vangu­ard. Mót­mæl­in fóru fram und­ir yf­ir­skrift­inni Sam­ein­um hægrið eða Unite the Right. 

James Fields er auk morðs ákærður fyrir að hafa ekið á fólk og stungið af og fyrir að slasa fólk alvarlega þegar hann ók bifreið sinni, svörtum Dodge Challenger, inn í hóp fólks sem mótmælti samkomu öfgamanna í bænum.

Val á kviðdómendum hefst í dag og er talið að það taki tvo daga. Ef Fields verður fundinn sekur um að hafa myrt Heyer af yfirlögðu ráði á hann yfir höfði sér allt frá 20 ára til lífstíðardóms.

Fields er einnig ákærður fyrir hatursglæpi en réttarhöldin í því máli verða haldin sér. Ef hann verður fundinn sekur um brot á alríkislögum á hann yfir höfði sér dauðadóm en saksóknarar hafa ekki tekið ákvörðun um hvort farið verði fram á þá refsingu.

Ganga „Sameinum hægrið“ var skipulögð af Kessler og Richard Spencer og tóku hundruð félaga í öfgasamtökum þátt í göngunni. Meðal annars hvítir karlar vopnaðir rifflum sem kölluðu slagorð hvítra þjóðernissinna veifandi logandi kyndlum.  

Á öðrum degi mótmælanna, 12. ágúst, kom til handalögmála milli stuðningsmanna nýnasista og andstæðinga fasima (anti-fascists) en sá hópur nefnist Antifa. Átökin stigmögnuðust og enduðu með ódæðisverki Fields. 

Samkvæmt ákærunni fyrir hatursglæpi gegn alríkinu var Fields með fjölmargar samfélagsmiðlasíður þar sem hann lýsti stuðningi sínum við yfirburði hvíta mannsins, Adolf Hitler og þriðja ríkið. Eins hvatti hann til ofbeldis gegn svörtu fólki og gyðingum.

Dagblaðið Toledo Blade, sem er staðarblað í heimaborg Field í Ohio, greinir frá því að hann hafi verið skráður í bandaríska herinn í ágúst 2015 en rekinn í desember þar sem hann stóðst ekki kröfur sem gerðar eru í þjálfunarbúðum.

Í síðasta mánuði rötuðu öfgasinnaðir hægrimenn enn einu sinni í kastljós fjölmiðla vestanhafs þegar Cesar Sayoc, sem var mikill stuðningsmaður og aðdáandi forseta Bandaríkjanna, Donald Trump, sendi fimmtán sprengjur til andstæðinga forsetans og fjölmiðla sem hafa gagnrýnt hann. 

27. október var Robert Bowers ákærður fyrir að hafa drepið 11 manns í bænahúsi gyðinga í Pittsburg en hann æpti: „Allir gyðingar eiga að deyja“, áður en hann hóf skothríð á gesti í bænahúsinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert