Donald Trump Bandaríkjaforseti trúir ekki niðurstöðum skýrslu Bandaríkjastjórnar um loftslagsbreytingar. Þar kemur fram að bandarísk stjórnvöld komi til með að verða fyrir stórkostlegu fjárhagstjóni verði ekki dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda.
„Ég trúi þeim ekki,“ sagði Trump spurður um niðurstöður skýrslunnar í Hvíta húsinu í dag.
Í skýrslunni er farið yfir möguleg áhrif loftslagsbreytinga á bandarískt samfélag. Þar segir að með áframhaldandi útblæstri gæti árlegt fjármagnstap numið hundruðum milljarða dala í lok aldarinnar.
Þeim hluta skýrslunnar kvaðst Trump ekki trúa, en hann sagðist þó hafa lesið hluta skýrslunnar og talið hana ágæta.
Trump tók einnig fram að Bandaríkin myndu ekki draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda nema önnur lönd gerðu slíkt hið sama.