Segir nauðsynlegt að nota táragas

AFP

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, réttlætir það að landamæraverðir hafi beitt táragasi á hælisleitendur við landamæri Mexíkó og Bandaríkjanna síðastliðinn sunnudag, þar á meðal börn. Hann segir verðina ekki hafa getað gert neitt annað í stöðunni þegar hópur fólks reyndi að komast yfir landamærin til Bandaríkjanna. BBC greinir frá.

„Þetta voru mjög sterkir einstaklingar sem réðust að þeim,“ sagði Trump á fundi í Missisippi. Um er að ræða hóp af fólki frá Mið-Ameríku sem ferðast hefur að landamærum Bandaríkjanna í von um betra líf. Talið er að allt að fimm þúsund manns hafi lagt land undir fót síðustu mánuði, margir fótgangandi, í þeim tilgangi að sækja um hæli í Bandaríkjunum.

Trump hefur verið gagnrýndur fyrir harðneskjuleg viðbrögð og yfirvöld í Mexíkó hafa krafist rannsóknar á notkun táragassins. Þá segjast yfirvöld í Mexíkó hafa vísað að minnsta kosti 100 hælisleitendum úr landi, sem höfðu gert tilraun til að komast til Bandaríkjanna.

AFP

Átök brutust út á sunnudaginn þar sem hópur hælisleitenda í Tijuana reyndi að brjótast í gegnum hindranir við landamærin, og gripu landamæraverðir og bandaríska tollgæslan til þess ráðs að beita táragasi á fólkið. Báru þeir fyrir sig að fólkið hefði hent grjóti í átt að þeim.

Trump segir það hafa verið rétt hjá landamæravörðunum að nota táragas. „Staðan er bara þannig að það kemur enginn inn í landið okkar nema hann komi hingað löglega,“ sagði hann á fundinum í Missisippi. Þá bætti hann við að táragasið sem notað hefði verið væri mjög öruggt og vægt.

Blaðamenn sem eru á svæðinu segja hins vegar að mjög sársaukafullt hafi verið að fá á sig táragas, jafnvel úr mikilli fjarlægð. „Ég fann hvernig þetta efni brenndi á mér andlitið úr næstum kílómetra fjarlægð,“ skrifaði ein blaðakona á Twitter.

AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert