Lækningavöruframleiðandinn Johnson&Johnson setti á markað net sem notuð hafa verið af læknum víða um heim til að lagfæra blöðru-, leg- og endaþarmssig kvenna, þar á meðal hér á landi, þrátt fyrir viðvörun um að efnið í netunum gæti skroppið saman og harðnað inni í líkama sjúklingsins. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum á milli starfsmanna sem fréttamiðilinn The Guardian hefur undir höndum.
Netin eru annaðhvort grædd undir þvagrásina eða undir slímhúð í leggöngum og koma þau í veg fyrir að líffæri, eins og leg og þvagblaðra, sígi niður og þrýsti sér upp að vegg legganganna, sem getur valdið konum miklum óþægindum. Er þetta algengt vandamál hjá konum eftir barnsburð.
Ýmis vandkvæði og aukaverkanir hafa komið upp í tengslum við netin frá Johnson&Johnson og hafa konur lýst óbærilegum sársauka vegna þeirra. Sumar kvennanna geta jafnvel ekki gengið vegna sársauka og ekki stundað kynlíf. Þær segja lífsgæði sín hafa skerst verulega.
Í samtali við mbl.is á síðasta ári sagði Kristín Jónsdóttir, yfirlæknir á kvennadeild Landspítalans, að netin hefðu ekki verið prófuð nógu vel áður en þau voru sett á markað. Þá sagði hún netin oft notuð í þeim tilfellum þar sem aðrar aðferðir hentuðu betur. Sjálf sagðist hún ekki nota netin nema af illri nauðsyn þegar allar aðrar aðferðir hefðu verið reyndar.
Hópmál hefur verið höfðað á hendur Johnson&Johnson vegna netanna í Ástralíu, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum. En tölvupóstsamskipti starfmanna fyrirtækisins eru hluti af gögnum sem lögð hafa verið fyrir í einu dómsmálanna í Bandaríkjunum.
Í póstunum kemur fram að starfsfólk hafi áhyggjur af því að efnið geti orðið hart og stökkt og beygst eins og kartöfluflögur. Í einum póstinum segir að þetta geti valdið sjúklingum miklum sársauka. Þrátt fyrir þessar áhyggjur voru netin sett á markað árið 2005, en Johnson&Johnson hefur verið stærsti framleiðandi slíkra neta síðustu ár.
Netin voru fyrr á þessu ári tekin úr sölu og af lista yfir leyfilegan lækningabúnað í Ástralíu og Nýja-Sjáland bannaði alfarið ígræðslu allra neta í leggöng kvenna eftir að efasemdir hafa vaknað síðustu misseri um öryggi og árangur slíkra aðgerða.