Vissu að legganganet gætu valdið sársauka

Netin hafa valdið mörgum konum miklum sársauka.
Netin hafa valdið mörgum konum miklum sársauka. Mynd/Wikipedia

Lækningavöruframleiðandinn Johnson&Johnson setti á markað net sem notuð hafa verið af læknum víða um heim til að lagfæra blöðru-, leg- og endaþarmssig kvenna, þar á meðal hér á landi, þrátt fyrir viðvörun um að efnið í netunum gæti skroppið saman og harðnað inni í líkama sjúklingsins. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum á milli starfsmanna sem fréttamiðilinn The Guardian hefur undir höndum.

Net­in eru annaðhvort grædd und­ir þvagrás­ina eða und­ir slím­húð í leggöng­um og koma þau í veg fyr­ir að líf­færi, eins og leg og þvag­blaðra, sígi niður og þrýsti sér upp að vegg leg­ganganna, sem get­ur valdið kon­um mikl­um óþæg­ind­um. Er þetta al­gengt vanda­mál hjá kon­um eft­ir barns­b­urð.

Ýmis vand­kvæði og auka­verk­an­ir hafa komið upp í tengsl­um við net­in frá Johnson&Johnson og hafa kon­ur lýst óbæri­leg­um sárs­auka vegna þeirra. Sum­ar kvenn­anna geta jafn­vel ekki gengið vegna sárs­auka og ekki stundað kyn­líf. Þær segja lífs­gæði sín hafa skerst veru­lega.

Í samtali við mbl.is á síðasta ári sagði Krist­ín Jóns­dótt­ir, yf­ir­lækn­ir á kvenna­deild Land­spít­al­ans, að net­in hefðu ekki verið prófuð nógu vel áður en þau voru sett á markað. Þá sagði hún net­in oft notuð í þeim til­fell­um þar sem aðrar aðferðir hentuðu bet­ur. Sjálf sagðist hún ekki nota net­in nema af illri nauðsyn þegar all­ar aðrar aðferðir hefðu verið reynd­ar.

Hópmál hefur verið höfðað á hendur Johnson&Johnson vegna netanna í Ástralíu, Bretlandi, Kanada og Bandaríkjunum. En tölvupóstsamskipti starfmanna fyrirtækisins eru hluti af gögnum sem lögð hafa verið fyrir í einu dómsmálanna í Bandaríkjunum.

Í póstunum kemur fram að starfsfólk hafi áhyggjur af því að efnið geti orðið hart og stökkt og beygst eins og kartöfluflögur. Í einum póstinum segir að þetta geti valdið sjúklingum miklum sársauka. Þrátt fyrir þessar áhyggjur voru netin sett á markað árið 2005, en Johnson&Johnson hefur verið stærsti framleiðandi slíkra neta síðustu ár.

Netin voru fyrr á þessu ári tekin úr sölu og af lista yfir leyfilegan lækningabúnað í Ástralíu og Nýja-Sjáland bannaði alfarið ígræðslu allra neta í leggöng kvenna eftir að efa­semd­ir hafa vaknað síðustu miss­eri um ör­yggi og ár­ang­ur slíkra aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert