Segir „El Chapo“ hafa reynt að myrða hann

Joaquin „El Chapo
Joaquin „El Chapo" Guzman í janúar árið 2016 í haldi mexíkósku lögreglunnar. AFP

Fyrrverandi vinur og flugmaður mexíkóska fíkniefnabarónsins Joaquin „El Chapo“ Guzman, sem réttað er yfir í New York þessa dagana, sagði dómstólnum í dag frá því að Guzman hefði í fjórgang fyrirskipað að hann yrði myrtur.  

Miguel Angel „l Gordo“ Martinez var framseldur til Bandaríkjanna 2001 og var stefnt til að bera vitni í réttarhöldunum gegn Guzman, sem er meint­ur leiðtogi Sinaloa-fíkni­efna­hrings­ins og var fram­seld­ur til Banda­ríkj­anna fyr­ir tæp­um tveim­ur árum. Guzman er sakaður um að hafa smyglað yfir 155 tonn­um af kókaíni til Banda­ríkj­anna yfir 25 ára tíma­bil og á lífstíðardóm yfir höfði sér verði hann fund­inn sek­ur.

Martinez nýtur vitnaverndar í Bandaríkjunum sýni hann yfirvöldum samstarfsvilja. Sjálfur segist hann hafa barist hart gegn því að vera framseldur og fullyrðir að hann hafi aldrei svikið Guzman. Guzman hafi engu að síður fyrirskipað að hann skyldi drepinn.

„Ég minntist aldrei á Guzman. Ég brást honum aldrei. Ég stal aldrei frá honum og sveik hann aldrei. Ég passaði upp á alla fjölskyldu hans og það eina sem ég fékk í staðinn var að það var ráðist fjórum sínum á mig,“ sagði Martinez við kviðdómendur og kvaðst vera að bera vitni gegn vilja sínum. Sjálfur óttaðist hann að Guzman fyrirskipi nú fimmta tilræðið gegn honum.

Martinez vann fyrir Guzman hjá Sinaloa-fíkniefnahringnum og græddi að minnsta kosti þrjár milljónir dollara sem fíkniefnasali í Mexíkóborg. Samhliða þróaði hann með sér kókaínfíkn sem olli því að lagfæra þurfti á honum nefið.

Kvaðst Martinez nú vera í meðferð hjá sálfræðingi vegna kvíða. „Ég get ekki sofið,“ sagði hann. Tilræðin fjögur gegn honum segir hann hafa átt sér stað í fangelsum í Mexíkó á árunum 1998-2001. Í þremur tilfellum var hnífi beitt gegn honum og var hann m.a. stunginn sex sinnum í andlitið í þriðja tilræðinu.

Í fjórða tilræðinu var tveimur handsprengjum kastað inn í klefa hans á meðan hljómsveit lék eitt uppáhaldslaga Guzman 20 sinnum fyrir utan fangelsið, en þar kemur fyrir textabrotið „þegar við deyjum erum við aðeins duft“. Martinez kveðst hins vegar hafa náð að fela sig og forðast þannig meiðsli.

Hann hefur nú setið í fangelsi í 10 ár, bæði í Bandaríkjunum og Mexíkó.

Hann lýsti sig sekan eftir að hafa verið framseldur til Bandaríkjanna og gerðist samstarfsfús við yfirvöld í skiptum fyrir nýtt líf fyrir sig og fjölskyldu sína innan vitnaverndarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert