Franskur dómstóll hefur dæmt þýskt vottunarfyrirtæki sem samþykkti notkun gallaðra brjóstapúða til að greiða um 400 sænskum konum skaðabætur.
Fyrirtækið TUV var dæmt til að greiða hverri konu fyrir sig 4.600 evrur, eða um 650 þúsund krónur, í skaðabætur vegna þess tjóns sem þær urðu fyrir.
Fyrirtækinu var einnig gert að endurgreiða konunum kostnaðinn vegna aðgerðanna sem þær gengust undir til að fjarlægja brjóstapúðana. Í þeim púðunum var ódýrt iðnaðarsílikon, það sama og er notað í raftækjum.
Einn mánuður er síðan æðsti áfrýjunarréttur Frakklands úrskurðaði að réttað yrði aftur yfir TUV vegna vanrækslu í tengslum við brjóstapúðana. Fyrirtækið hafði verið sýknað á neðra dómsstigi.
Pipa, félag sem er fulltrúi um 20 þúsund notenda brjóstapúðanna víðs vegar um heiminn, hefur fagnað dóminum. Lögmaður TUV kveðst ætla að áfrýja.