Fyrrverandi forseti Bandaríkjanna, George H.W. Bush, er látinn 94 ára að aldri.
Fjölmargir minnast Bush en eiginkona hans, Barbara Bush, lést í apríl á þessu ári. Sonur þeirra George Bush var 43. forseti Bandaríkjanna en hann gegndi embættinu tvö kjörtímabil, 2001 til 2009.
George H.W. Bush fæddist 12. júní 1924 í Milton, Massachusetts en fjölskylda hans var mjög auðug og áhrifamikil á stjórnmálasviðinu þar. Hann gegndi herþjónustu í seinni heimsstyrjöldinni og var skotinn niður af Japönum yfir Kyrrahafi. Eftir stríð starfaði hann um tíma í olíuiðnaðinum en sneri sér síðan að stjórnmálum. Var þingmaður í fulltrúadeildinni og síðar forstjóri leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Hann var varaforseti í forsetatíða Ronalds Reagans og var forsetaefni repúblikana árið 1988 og vann auðveldan sigur á forsetaefni demókrata, Michael Dukakis, í nóvember það ár.
En hann var aðeins forseti eitt kjörtímabil og tapaði fyrir demókratanum Bill Clinton í nóvember 1992 en efnahagsástand Bandaríkjanna var bágborið á þessum tíma.
Hann vann að ýmsum mannúðarverkefnum eftir að hann lét af embætti. Meðal annars að safna fé fyrir fórnarlömb flóðbylgjunnar í Asíu árið 2004 og jarðskjálftans á Haítí árið 2010. Hann starfaði einnig með Clinton, Jimmy Carter, Barack Obama og syni sínum, George, við að safna fé fyrir fórnarlömb fellibyljarins í Texas í fyrra.
Barack Obama og eiginkona hans, Michelle, hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau minnast hans með hlýju fyrir allt það sem hann hafi gert fyrir bandarísku þjóðina. „Eftir 73 ára hjónaband eru George og Barbara Bush sameinuð að nýju. Tvö ljós sem aldrei bar skugga á, fólk sem bar ótakmarkaða virðingu hvort fyrir öðru,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Obama-hjónanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, minntist einnig Bush og þakkaði honum ævistarfið og „óhagganlega leiðtogastjórn“ á tímum kalda stríðsins. Hann segir að þau Melania syrgi fyrrverandi forseta líkt og aðrir Bandaríkjamenn.
Fimm börn George H.W. og Barböru Bush lifa foreldra sína en þau láta eftir sig 17 barnabörn og átta barnabarnabörn.