Frans páfi segir samkynhneigð innan prestastéttar kaþólsku kirkjunnar alvarlegt mál sem hann hafi áhyggjur af. Þá lýsir hann því að hann telji samkynhneigð vera „í tísku“ og biðlar til presta að minnast skírlífisheita sinna.
Þetta er á meðal þess sem fram hefur komið í hluta úr viðtali spænsks trúboða við páfann sem birt var á ítalska miðlinum Corriere della Sera.
Páfinn sagði kirkjuna verða að vera kröfuharða í vali sínu á prestum, og að þeir sem því sinntu yrðu að vera þess fullvissir um að kandídatarnir hefðu náð andlegum þroska til að takast á við preststarfið. Af þeim ástæðum hvetti kirkjan til þess að menn með „slíkar tilhneigingar“ fengju ekki að taka við embættum innan kirkjunnar.
Páfinn sagði það sama eiga við konur sem vildu verða nunnur. Ekkert pláss væri fyrir samkynhneigð í lífi presta og nunna.