Orð og gjörðir Donald Trumps Bandaríkjaforseta draga úr áhrifum alþjóðasamfélagsins til að minnka losun koltvísýrings. Þetta eru niðurstöður nýrrar skýrslu sem BBC fjallar um. Er úrsögn Bandaríkjanna frá Parísarsamkomulaginu sögð gefa stjórnvöldum annarra ríkja afsökun fyrir að hægja á aðgerðum sínum.
Segja höfundar skýrslunnar ríki heims vera í afneitun varðandi raunveruleg áhrif Trumps á loftslagsbreytingar.
Skýrslan, sem unnin er af Institute of International and European Affairs (IIEA), var kynnt við upphaf loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem haldin er í Póllandi þar sem rætt verður um framtíð Parísarsamkomulagsins.
Trump réttlæti þá ákvörðun sína að segja Bandaríkin frá Parísarsamkomulaginu með því að hann hefði verið kosinn til að þjóna íbúum Pittsburg ekki Parísar. Aðrir þjóðarleiðtogar hétu því hins vegar að ekki yrði hætt við og að ákvörðun Bandaríkjanna myndi efla þá í þeirri staðfestu sinni að draga úr losun.
Skýrsla IIEA bendir hins vegar til þess að orð og gjörðir Trumps hafi þegar valdið verulegum skaða á Parísarsamkomulaginu. Benda skýrsluhöfundar máli sínu til stuðnings á þrjá flokka þar sem áhrif Trumps séu mælanleg.
Bandarísk stjórnvöld hafi dregið úr umhverfisreglugerðum varðandi vinnslu jarðefnaeldsneytis og fyrir vikið séu þessir orkugjafar, sem eru með þeim mest mengandi, nú orðir áhugaverðari kostur í augum sumra fjárfesta.
Eins hafi ákvörðun Bandaríkjanna að segja sig frá Parísarsamkomulaginu veitt öðrum „siðferðilegt og pólitískt yfirvarp til að fylgja í kjölfarið“. Eru Rússland og Tyrkland nefnd sem dæmi í því sambandi, en bæði ríkin hafa neitað að staðfesta Parísarsamkomulagið.
Loks hafi úrsögn Bandaríkjanna einnig „verulega skaðað viðskiptavild í alþjóðlegum samningaviðræðum“ og að það sé nokkuð sem sé verulega mikilvægt fyrir frekar framgang í viðræðum á loftslagsráðstefnunni.
Í umfjöllun sinni um jarðaefnaeldsneyti nefna skýrsluhöfundar fjárfestingar 36 bandarískra banka í kolaiðnaðinum sem dæmi. Eftir undirritun Parísarsamkomulagsins í desember 2015 drógust þær saman um 38% en eftir að Trump tók við embætti 2017 jukust þær aftur um 6%,
„Þetta er engin tilviljun. Það er eitthvað sem styrkir stoðir þessarar þróunar og það eru hin pólitísku skilaboð,“ hefur BBC eftir Joseph Curtin hjá IIEA.
„Parísarsamkomulagið olli því að alþjóðafjárfestum á heimsvísu rann kalt vatn milli skins og hörunds. Það fékk þá til að hugleiða hvort þeir sætu uppi fjárfestingar og hvort stjórnmálamönnum væri raunverulega alvara varðandi loftslagsbreytingar. Það leikur enginn vafi á að Trump-áhrifin hafa skapað vissa óvissu varðandi pólitíska skuldbindingu að ná einhverju nálægt 2° markinu.“
Sagði Curtin endurnýjaða áherslu á fjárfestingu í kola- og olíuiðnaði hafa skaðað fjárfestingar í endurnýjanlegri orku í Bandaríkjunum og búast megi við að þeirra áhrifa verði vart víða um heim.
Á hinu pólitíska sviði hafi þá stjórnmálaleiðtogar í Rússlandi, Tyrklandi, Ástralíu og Brasilíu nefnt fordæmi Trump sem ástæðu fyrir að takmarka aðgerðir sínar gegn loftlagsbreytingum. Þá hafa Rússland og Tyrkland sagst ætla ekki að staðfesta samkomulagið.
Nýkjörin forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, hefur einnig sent frá sér blendin skilaboð varðandi loftslagsbreytingar og nýlega útilokaði stjórn hans að næsta loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna verði haldin í Brasilíu.
Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, tók málið upp á loftslagsráðstefnunni og sagði ljóst að með auknum framgangi poppúlískra ríkisstjórna væru ríki heims að verða klofnari í afstöðu sinni til loftslagsbreytinga.
„Við sjáum að traust milli almannaskoðana og alþjóðastofnana hefur látið á sjá og að mínu mati hefur þetta leitt til skorts á nauðsynlegum pólitískum vilja,“ sagði Guterres.