Fjárfesta í loftslagsverkefnum fyrir 24.500 milljarða

Fulltrúar um 200 ríkja taka nú þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu …
Fulltrúar um 200 ríkja taka nú þátt í loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Póllandi. AFP

Alþjóðagjaldeyrisbankinn tilkynnti í dag að bankinn ætli að fjárfesta fyrir um 200 milljarða Bandaríkjadala, eða um 24.500 milljarða króna, í margvíslegum verkefnum sem draga eiga úr loftslagsbreytingum.

Fjárfestingarnar sem eru fyrirhugaðar á árabilinu 2021 – 2025 eru um tvisvar sinnum hærri en sú upphæð sem bankinn ver nú í málaflokkinn á fimm ára tímabili, að því er AFP-fréttastofan greinir frá.

Bankinn segir í yfirlýsingu sinni að áætlunin sé til marks um aukinn metnað í baráttunni við loftslagsbreytingar og að ákvörðuninni sé einnig ætlað að brýna fyrir ríkjum heims að gera slíkt hið sama. Hafa helstu iðnríki heims skuldbundið sig til að leggja samtals 100 milljarða Bandaríkjadala árlega til loftslagsmála, ekki síðar en árið 2020.

„Ef við drögum ekki úr losun gróðurhúsaloftegunda og grípum strax til aðgerða munu 100 milljónir til viðbótar búa við fátækt árið 2030,“ sagði John Roome, yfirmaður loftslagsbreytinga hjá Alþjóðabankanum.

Stór hluti fjárfestinga bankans mun fara í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, en verkefni tengd hlýnun jarðar hafa færst ofar á forgangslistann þar sem milljónir manna búa þegar við breyttar aðstæður af þeim völdum.

Ákvörðun Alþjóðabankans um fjárfestingarnar var tilkynnt í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem þessa dagana er haldin í Póllandi, en fulltrúar um 200 ríkja sitja nú ráðstefnuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert