Haspel kemur fyrir Bandaríkjaþing vegna morðsins á Khashoggi

Gina Haspel, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA.
Gina Haspel, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar CIA. AFP

Gina Haspel, forstjóri bandarísku leyniþjónustunnar (CIA), kemur fyrir Bandaríkjaþing í dag þar sem hún mun fara yfir atburðarrásina sem leiddi til morðsins á sádi-arabíska blaðamanninum Jamal Khashoggi. Haspel mun einnig hitta leiðtoga öldungadeildarþingsins.

Haspel var ekki viðstödd í síðustu viku þegar Mike Pompeo utanríkisráðherra og James Mattis varnarmálaráðherra ræddu morðið við þingheim og voru nokkrir þingmenn ósáttir við fjarveru hennar.

Khashoggi var myrt­ur á ræðismanns­skrif­stofu Sádi-Ar­ab­íu í Ist­an­búl í októ­ber. Bandarískir fjölmiðlar greindu frá því um miðjan nóvember að CIA hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að Mohamm­end bin Salm­an, krón­prins Sádi-Ar­ab­íu, hafi fyr­ir­skipað morðið á Khashoggi.

Haspel er sögð mjög ósátt við að niðurstöðu rannsóknar CIA hafi verið lekið í fjölmiðla. Leyniþjónustan hefur ekki staðfest að Haspel muni koma fyrir þingið í dag.

Trump segir niðurstöðu CIA ekki endanlega

Yfirvöld í Sádi-Arabíu hafa ákært ellefu manns fyrir morðið en þvertaka fyrir að krónprinsinn hafi nokkuð með morðið að gera. CIA hefur hins vegar sannanir fyrir því að nokkrum klukkustundum áður en Khashoggi var myrt­ur sendi krón­prins Sádi-Ar­ab­íu að minnsta kosti 11 skila­boð til Saud al-Qahtani, nán­asta ráðgjafa síns, sem hef­ur verið ákærður fyr­ir að hafa skipu­lagt morðið.

Pompeo og Mattis sögðu hins vegar við öldungadeildarþingmenn í síðustu viku að engar beinar sannanir væru fyrir aðkomu krónprinsins að morðinu. Þá hefur Donald Trump Bandaríkjaforseti sagt að niðurstaða CIA sé ekki endanleg.

Fyrir um það bil tveimur vikum gaf Trump út yf­ir­lýs­ingu þar sem hann sagði að krón­prins­inn hafi jafn­vel vitað af þess­um hörmu­lega at­b­urði. Kannski vissi hann, kannski ekki, sagði í yf­ir­lýs­ing­unni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert