Nauðguðu 150 konum og stúlkum

AFP

Yfir 150 kon­ur og stúlk­ur hafa und­an­farna 12 daga stigið fram og greint frá kyn­ferðis­legu of­beldi sem þær hafa orðið fyr­ir í Suður-Súd­an.

Vopnaðir menn, marg­ir í ein­kenn­is­bún­ing­um, gerðu árás­irn­ar skammt frá borg­inni Bentiu í norður­hluta lands­ins. Kon­un­um og stúlk­un­um var nauðgað eða þær beitt­ar öðru kyn­ferðisof­beldi af hálfu mann­anna. Þetta kem­ur fram í sam­eig­in­legri yf­ir­lýs­ingu Henrietta Fore, fram­kvæmda­stjóra Barna­hjálp­ar Sam­einuðu þjóðanna UNICEF, yf­ir­manns hjálp­ar­starfs SÞ, Mark Lowcock, og fram­kvæmda­stjóra Mann­fjölda­sjóðs Sam­einuðu þjóðanna (UN­FPA), Na­talia Kanem. 

Stofn­an­irn­ar þrjár for­dæma þess­ar viðbjóðslegu árás­ir og krefjast þess að yf­ir­völd í Suður-Súd­an tryggi að árás­ar­menn­irn­ir verði dregn­ir fyr­ir dóm.

Mannúðarsam­tök­in Lækn­ar án landa­mæra (MSF) greindu frá því í síðustu viku að 125 kon­um og stúlk­um hefði verið nauðgað þegar þær voru á göngu að sækja neyðaraðstoð hjá miðstöðvum sem sett­ar hafa verið upp af alþjóðleg­um hjálp­ar­stofn­un­um þar sem íbú­ar geta sótt mat­væli og aðra neyðaraðstoð.

Fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, Ant­onio Guter­res, for­dæm­ir þess­ar árás­ir og seg­ir þær áminn­ingu um hversu mik­illi hættu kon­ur og stúlk­ur eru í. Hann hvet­ur stríðandi fylk­ing­ar og leiðtoga framtíðar­inn­ar í S-Súd­an til þess að tryggja ör­yggi al­mennra borg­ara og refsa þeim sem fremja slíka glæpi fyr­ir dóm­stól­um. 

Frá því borg­ara­styrj­öld­in hófst í Suður-Súd­an árið 2013 hafa borist fregn­ir af hrotta­leg­um kyn­ferðis­glæp­um í land­inu en á fyrri hluta árs­ins 2018 var til­kynnt um 2.300 nauðgan­ir. Í flest­um til­vik­um eru fórn­ar­lömb­in kon­ur og stúlk­ur. Yfir 20% þeirra eru börn. Stofn­an­irn­ar þrjár hjá SÞ segja að nauðgan­irn­ar séu miklu fleiri því mjög oft er ekki til­kynnt um of­beld­is­brot­in. Auk þess að vera nauðgað voru þær húðstrýkt­ar, barðar eða beitt­ar öðru of­beldi. Föt­um þeirra var rænt, skóm og þeim pen­ing­um sem þær áttu. Jafn­framt voru tekn­ir af þeim mat­armiðarn­ir sem tryggja þeim mat­araðstoð. 

Ruth Okello, sem er ljós­móðir á veg­um MSF í Suður-Súd­an, seg­ist aldrei hafa upp­lifað slíka fjölg­un fórn­ar­lamba kyn­ferðis­glæpa og nú en mörg fórn­ar­lambanna leita til Lækna án landa­mæra eft­ir lækn­isaðstoð í kjöl­farið. 

-
- AFP
mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka