Spænskur dómstóll hefur í dag staðfest níu ára fangelsisdóm sem fimm karlmenn hlutu í undirrétti fyrir að hafa misnotað unga konu kynferðislega. Tveir af fimm dómurum réttarins töldu fimmmenningana hafa nauðgað konunni og vildu þyngja refsingu þeirra.
Karlmennirnir höfðu verið sakaðir um að hafa nauðgað konunni, þá átján ára gamalli, í anddyri fjölbýlishúss í borginni Pamplona í júlí árið 2016. Átti ofbeldið sér stað við upphaf hátíðarhalda vegna San Fermin-nautahlaupsins sem standa yfir í viku ár hvert.
Fimmmenningarnir tóku ofbeldið upp á síma sína og gortuðu sig síðar af hegðun sinni á samskiptaforritinu WhatsApp. Þar kölluðu þeir sig „hjörðina“ eða La Manada.
Í apríl á þessu ári voru þeir dæmdir til níu ára fangelsisvistar fyrir kynferðislega misnotkun en voru hins vegar sýknaðir af nauðgun. Komst dómstóllinn að þeirri niðurstöðu að mennirnir hefðu hvorki beitt valdi né hótunum.
Báðir aðilar málsins áfrýjuðu niðurstöðunni sem hafði valdið mikilli ólgu á Spáni. Var m.a. efnt til fjölmennra mótmæla. „Ef þú streitist á móti þá drepa þeir þig. Ef þú gerir það ekki ertu að veita samþykki. Hvað á kona að gera?“ stóð m.a. á skiltum mótmælenda.
Í dag kvað svo hæstiréttur Navarra í norðurhluta Spánar upp sinn dóm. Í niðurstöðu dómsins kom fram að engar sannanir væru fyrir beitingu ofbeldis og ómögulegt væri að meta hvort hótunum eða ógnunum hafi verið beitt.
Samkvæmt gildandi lögum á Spáni þurfa að liggja fyrir sannanir um beitingu ofbeldis eða ógnunar svo að hægt sé að dæma fyrir kynferðislegt ofbeldi. Stjórnvöld íhuga nú að endurskoða þau lög.
En tveir af fimm dómurum dómstólsins, sem allir eru karlkyns, vildu ganga lengra. Í séráliti sínu sögðu þeir verknaðinn framkvæmdan með ógnun og þvingunum af öllum fimmmenningunum. Þeir hafi lagt gildru fyrir fórnarlamb sitt og gefið því lítið sem ekkert tækifæri til að sleppa.
Sögðu þeir því að um nauðgun hefði verið að ræða og að auki hefðu fimmmenningarnir reynt að niðurlægja konuna og skilið hana eftir hálfnakta á sama tíma og einn þeirra greip símann hennar og tók úr honum minniskortið. Vildu dómararnir tveir dæma mennina í rúmlega fjórtán ára fangelsi. Saksóknarar höfðu farið fram á 22 ára fangelsisdóm yfir mönnunum.
Agustin Martinez, verjandi fjögurra af mönnunum fimm, segir að niðurstöðu hæstaréttarins verði áfrýjað til enn hærra dómstigs, þ.e. til hæstaréttar Spánar. Hann mun þar fara fram á sýknun. Verjendur mannanna hafa haldið því fram að konan hafi samþykkt kynferðislegt samneyti við þá. Því hafa saksóknarar mótmælt þar sem konan hafi aðeins hitt mennina sjö mínútum áður en verknaðurinn átti sér stað og hafi alls ekkert þekkt þá.
Allir dómarar hæstaréttarins segja að upptaka af verknaðinum hafi brotið gegn friðhelgi einkalífs konunnar og hafa vísað því til undirréttar, sem kvað upp fyrri dóminn, að ákveða refsingu fyrir það brot.