Dómur yfir „hjörðinni“ staðfestur

Konur flykktust út á götur í Pamplona nýverið og kröfðust …
Konur flykktust út á götur í Pamplona nýverið og kröfðust þess að ofbeldi gegn konum yrði tekið fastari tökum. AFP

Spænsk­ur dóm­stóll hef­ur í dag staðfest níu ára fang­els­is­dóm sem fimm karl­menn hlutu í und­ir­rétti fyr­ir að hafa mis­notað unga konu kyn­ferðis­lega. Tveir af fimm dómur­um rétt­ar­ins töldu fimm­menn­ing­ana hafa nauðgað kon­unni og vildu þyngja refs­ingu þeirra. 

Karl­menn­irn­ir höfðu verið sakaðir um að hafa nauðgað kon­unni, þá átján ára gam­alli, í and­dyri fjöl­býl­is­húss í borg­inni Pamplona í júlí árið 2016. Átti of­beldið sér stað við upp­haf hátíðar­halda vegna San Ferm­in-nauta­hlaups­ins sem standa yfir í viku ár hvert.

Fimm­menn­ing­arn­ir tóku of­beldið upp á síma sína og gortuðu sig síðar af hegðun sinni á sam­skipta­for­rit­inu What­sApp. Þar kölluðu þeir sig „hjörðina“ eða La Man­ada. 

Í apríl á þessu ári voru þeir dæmd­ir til níu ára fang­elsis­vist­ar fyr­ir kyn­ferðis­lega mis­notk­un en voru hins veg­ar sýknaðir af nauðgun. Komst dóm­stóll­inn að þeirri niður­stöðu að menn­irn­ir hefðu hvorki beitt valdi né hót­un­um.

Báðir aðilar máls­ins áfrýjuðu niður­stöðunni sem hafði valdið mik­illi ólgu á Spáni. Var m.a. efnt til fjöl­mennra mót­mæla. „Ef þú streit­ist á móti þá drepa þeir þig. Ef þú ger­ir það ekki ertu að veita samþykki. Hvað á kona að gera?“ stóð m.a. á skilt­um mót­mæl­enda. 

Í dag kvað svo hæstirétt­ur Navarra í norður­hluta Spán­ar upp sinn dóm. Í niður­stöðu dóms­ins kom fram að eng­ar sann­an­ir væru fyr­ir beit­ingu of­beld­is og ómögu­legt væri að meta hvort hót­un­um eða ógn­un­um hafi verið beitt. 

Sam­kvæmt gild­andi lög­um á Spáni þurfa að liggja fyr­ir sann­an­ir um beit­ingu of­beld­is eða ógn­un­ar svo að hægt sé að dæma fyr­ir kyn­ferðis­legt of­beldi. Stjórn­völd íhuga nú að end­ur­skoða þau lög.

En tveir af fimm dómur­um dóm­stóls­ins, sem all­ir eru karl­kyns, vildu ganga lengra. Í séráliti sínu sögðu þeir verknaðinn fram­kvæmd­an með ógn­un og þving­un­um af öll­um fimm­menn­ing­un­um. Þeir hafi lagt gildru fyr­ir fórn­ar­lamb sitt og gefið því lítið sem ekk­ert tæki­færi til að sleppa.

Sögðu þeir því að um nauðgun hefði verið að ræða og að auki hefðu fimm­menn­ing­arn­ir reynt að niður­lægja kon­una og skilið hana eft­ir hálfnakta á sama tíma og einn þeirra greip sím­ann henn­ar og tók úr hon­um minn­iskortið. Vildu dóm­ar­arn­ir tveir dæma menn­ina í rúm­lega fjór­tán ára fang­elsi. Sak­sókn­ar­ar höfðu farið fram á 22 ára fang­els­is­dóm yfir mönn­un­um. 

Agust­in Mart­inez, verj­andi fjög­urra af mönn­un­um fimm, seg­ir að niður­stöðu hæsta­rétt­ar­ins verði áfrýjað til enn hærra dóm­stigs, þ.e. til hæsta­rétt­ar Spán­ar. Hann mun þar fara fram á sýkn­un. Verj­end­ur mann­anna hafa haldið því fram að kon­an hafi samþykkt kyn­ferðis­legt sam­neyti við þá. Því hafa sak­sókn­ar­ar mót­mælt þar sem kon­an hafi aðeins hitt menn­ina sjö mín­út­um áður en verknaður­inn átti sér stað og hafi alls ekk­ert þekkt þá.

All­ir dóm­ar­ar hæsta­rétt­ar­ins segja að upp­taka af verknaðinum hafi brotið gegn friðhelgi einka­lífs kon­unn­ar og hafa vísað því til und­ir­rétt­ar, sem kvað upp fyrri dóm­inn, að ákveða refs­ingu fyr­ir það brot.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert